Ekkert högg í magann

Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson. mbl.is/Ólafur Árdal

KR mátti þola 4:3-tap gegn Aftureldingu í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.

„Þetta er ekkert högg í magann. Af hverju ætti þetta að vera högg í magann? Þetta var tapleikur, það var enginn að kýla mig. Það er ekki þannig en það er súrt. 

Mér fannst við stjórna þessum leik að langstærstum hluta og ég þarf að sjá þetta betur. Ég klóra mér í hausnum hvernig við gátum fengið á okkur fjögur mörk í þessum leik. Það er mér hulin ráðgáta.

Það var vel gert hjá þeim, þeir nýttu sér tækifærin sem þeir fengu. Við þurfum að verja teiginn okkar betur, það er alveg ljóst,“ sagði Óskar í viðtali við mbl.is eftir leik. 

KR byrjaði leikinn af krafti og komst 2:0 yfir eftir tíu mínútna leik. Afturelding náði að jafna metin snemma í síðari hálfleik en KR náði aftur forystunni skömmu síðar. Afturelding vann þó að lokum 4:3-sigur eftir tvö mörk með stuttu millibili undir lok leiks.

„Mér fannst við fá fjölmörg færi til að gera út um þennan leik í stöðunni 3:2 en það er klárt mál að rétt fyrir þriðja markið þeirra fannst mér meðbyrinn sveiflast í þeirra átt. Við náðum ekki að standa það af okkur, því miður,“ sagði Óskar.

„Við verðum að vera aðeins harðari, verðum að vera ákveðnari í því að verja mark okkar,“ bætti Óskar við. 

Margir leikmenn í liði KR hafa verið að glíma við meiðsli undanfarið.

„Það er ekkert auðvelt að vera í liði sem þarf alltaf að breyta um leikmenn. Innan leiks þá þurfum við að skipta út tveimur í hálfleik, Aroni Sigurðssyni á 60. mínútu sem var fyrir fram ákveðið. Þá riðlast leikur liðsins dálítið,“ sagði Óskar. 

„Ef þetta er fórnarkostnaður þessa leikstíls þá tökum við það bara á kassann. Á endanum venjast menn því að spila svona og þá verðum við ljómandi fínir.“

KR hefur spilað mjög skemmtilegan bolta í byrjun tímabils en liðið hefur skorað flest mörk allra í deildinni. Liðið hefur þó einnig fengið flest mörk á sig ásamt ÍA og KA. 

„Við spilum eins og við spilum og erum trúir því. Við erum með eitt plan og það er plan A og það er að reyna að halda boltanum eins og við getum og byggja upp sóknir á sæmilega skipulagðan hátt.

Þó einhvern veginn þannig að þetta sé ekki einhver letilegur gír yfir því. Síðan reynum við að pressa maður á mann og það úttektur mikið hlaup,“ sagði Óskar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert