Ótrúlegur endurkomusigur Aftureldingar

Benjamin Stokke og Aron Elí Sævarsson fagna fyrra marki þess …
Benjamin Stokke og Aron Elí Sævarsson fagna fyrra marki þess fyrrnefnda í kvöld. mbl.is/Hákon

Afturelding vann ótrúlegan endurkomusigur gegn KR, 4:3, í bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.

KR er í fjórða sæti með 10 stig, jafnmörg stig og Afturelding í fimmta sæti.

KR-ingar hófu viðureignina með látum en strax á sjöttu mínútu komust þeir yfir eftir góða sókn. Gabríel Hrannar Eyjólfsson lagði boltann út í teiginn á Guðmund Andra Tryggvason sem lagði hann í hægra hornið, stöngin inn.

Aðeins þremur mínútum síðar tvöfaldaði Aron Sigurðarson forystu KR með glæsilegu aukaspyrnumarki. Skot af 25 metra færi, yfir vegginn í bláhornið.

Eftir rétt rúman hálftíma leik minnkaði Afturelding muninn. Fyrirliðinn Aron Elí Sævarsson átti fyrirgjöf frá vinstri sem fann Benjamin Stokke utarlega í teignum sem skoraði með viðstöðulausu skoti.

Staðan í hálfleik var 2:1 fyrir KR. 

Benjamin Stokke var aftur á ferðinni á 53. mínútu þegar hann jafnaði metin. Georg Bjarnason kom með fasta sendingu fyrir markið þar sem Stokke mætti og skoraði af öryggi.

KR var ekki lengi að komast aftur í forystu en á 58. mínútu skoraði Eiður Gauti Sæbjörnsson. Matthias Præst fann Gabríel Hrannar vinstra megin í teignum sem renndi boltanum fyrir markið á Eið sem náði að pota boltanum í markið. 

Axel Óskar Andrésson var nálægt því að jafna metin fyrir Aftureldingu á 70. mínútu þegar skalli hans endaði í slánni.

Á 77. mínútu jafnaði fyrirliðinn Aron Elí Sævarsson metin fyrir Aftureldingu. Eftir hornspyrnu myndaðist mikill darraðardans í teignum og endaði boltinn hjá Aroni Elí sem skoraði af stuttu færi.

Afturelding náði forystunni aðeins þremur mínútum síðar. Varamaðurinn Þórður Gunnar Hafþórsson átti góða fyrirgjöf á Hrannar Snæ Magnússon á fjærstönginni sem hamraði boltanum í netið. 

KR-ingar pressuðu Aftureldingu stíft á lokamínútunum en náðu ekki að jafna metin. Lokaniðurstaða því 4:3-sigur Mosfellinga.

Guðmundur Andri Tryggvason og Aron Sigurðarson eru báðir búnir að …
Guðmundur Andri Tryggvason og Aron Sigurðarson eru báðir búnir að skora í kvöld. Hér fagna þeir marki Guðmundar. mbl.is/Hákon
Afturelding 4:3 KR opna loka
90. mín. Það verða að lágmarki fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert