Víkingur fór til Garðabæjar og gerði 2:2-jafntefli við Stjörnuna í Bestu deild karla í kvöld. Mbl.is ræddi við Sölva Geir Ottesen, þjálfara Víkings, eftir leik.
„Við erum með gjörsamlega stjórnina í fyrri hálfleik og erum með gott hálstak á Stjörnumönnum. Það er svekkjandi að hafa ekki nýtt þær stöður sem við fengum í fyrri hálfleik.
Við lögðum virkilega mikla orku og kraft í fyrri hálfleikinn sem kom okkur í góðar stöður til að koma með stærra forskot í hálfleik. Það gekk ekki eftir og við brenndum fullt af góðum færum.
Svekkjandi að ná ekki að fylgja seinni hálfleiknum. Stjörnumenn náðu að leysa betur úr pressunni og vinna fleiri seinni bolta þegar þeir fóru í langa. Við misstum mómentið sem við vorum með í fyrri hálfleiknum.
Þetta var kaotískur leikur og mikil orka sem fór í fyrri hálfleik og við náðum ekki að fylgja eftir. En ég er mjög sáttur með framlag liðs míns í dag, þeir djöfluðust og höfðu trú á þessu allan tímann. Það var ekki eins og menn væru að slaka á.
Seinni boltarnir féllu ekki með okkur, við vorum aðeins seinir í pressuna sem þeir náðu að losa sig úr, sem Stjarnan er góð í.
Svekkjandi hvernig þetta fór en flott trú hjá strákunum, að koma til baka og góður karakter að koma til baka í seinni hálfleik. Við hefðum hæglega getað stolið þessu í lokin en það gekk ekki eftir,“ sagði Sölvi í samtali við mbl.is
Víkingur fær Skagamenn í heimsókn í næstu umferð.
„Nú fer að horfa aftur á þennan leik og greina hann og síðan förum við að lesa ÍA. Þetta verður hörkuleikur, erfiður leikur á móti Skagamönnum. Þó svo að það hafi ekkert gengið frábærlega vel hjá þeim í byrjun móts þá er alltaf erfitt að brjóta lið sem spila lágblokk. Við þurfum að sleikja sárin núna, við vildum fá þessi þrjú stig, fengum þau ekki og nú er endurheimt og áfram gakk,“ sagði Sölvi að lokum.