FH fór upp úr fallsæti í Bestu deild karla í fótbolta með sigri á ÍA, 3:1, á útivelli á Akranesi í kvöld. FH er nú með sjö stig og í tíunda sæti. ÍA er komið niður í 11. sæti og er nú einu stigi á eftir FH-ingum og öruggu sæti.
FH-ingar byrjuðu betur og Úlfur Ágúst Björnsson og Ahmad Faqa fengu báðir góð færi á fyrstu tíu mínútunum. Árni Marinó Einarsson varði vel frá Úlfi og Faqa negldi boltanum yfir í kjölfarið.
Úlfur fékk annað færi á 16. mínútu er hann slapp einn í gegn eftir sendingu frá Sigurði Bjarti Hallssyni en skaut í stöngina. Boltinn barst á Kjartan Kára Halldórsson sem skilaði honum í netið með föstu skoti utan teigs.
Úlfur fékk þriðja úrvalsfæri hálfleiksins á 24. mínútu þegar hann lagði boltann framhjá úr markteignum eftir hornspyrnu.
Hinum megin var lítið um færi en Gísli Laxdal Unnarsson skaut þó rétt framhjá á 40. mínútu eftir gott samspil við Ómar Björn Stefánsson. Nær komust Skagamenn ekki í fyrri hálfleik og staðan 1:0 í leikhléi.
Hún var það ekki lengi í seinni hálfleik því Viktor Jónsson jafnaði í 1:1 á 49. mínútu er hann potaði boltanum yfir marklínuna í markteignum eftir fyrirgjöf frá Jóni Gísla Eyland Gíslasyni.
Kjartan var hins vegar ekki hættur því hann kom FH yfir í annað sinn í kvöld á 78. mínútu með glæsilegu skoti vinstra megin úr teignum í hornið fjær eftir sendingu frá Baldri Kára Helgasyni.
Aðeins þremur mínútum síðar gerði Tómas Orri Róbertsson þriðja mark FH er hann lagði boltann í netið af stuttu færi eftir sprett og sendingu hjá Birki Val Jónssyni. Var markið það fyrsta sem Tómas skorar í efstu deild.
Hvorugt liðið skapaði sér færi eftir það og FH fagnaði dýrmætum þremur sigrum.