„Þetta er örugglega heilt yfir sanngjörn niðurstaða,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson leikmaður Vals eftir 2:1-tap liðsins gegn Breiðablik í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.
Var þetta sanngjörn niðurstaða í kvöld?
„Já mögulega, við vorum ekki nógu góðir. Við vorum ekki á leiknum okkar. Við byrjuðum fyrri hálfleikinn svolítið lagt frá mönnum og þeir voru að valda okkur vandræðum með því að skipta um stöður og svoleiðis en mér fannst við ná aðeins betri tökum á því í seinni hálfleik.“
Þið skoruðuð samt eftir þrjár mínútur og voruð yfir fyrsta hálftímann.
„Það skiptir engu máli hvort þú skorir. Mér fannst við bara ekki komast í neitt einvígi. Vorum langt frá mönnum og einhvern veginn hvorki neðarlega né að hápressa þá. Mér fannst þetta lélegt hjá okkur í fyrri en skárri í seinni. Eins og þú segir þá skoruðum við í fyrri og töpum seinni 1:0 en það var samt aðeins betri bragur á liðinu og meiri vilji í seinni hálfleik.“
Valur skoraði í uppbótartíma en markið var dæmt af þar sem Hólmar ýtti Viktori Erni Magnússyni inni í teignum.
Ertu sáttur með dómgæsluna í kvöld?
„Nei, alls ekki. Það er kýtingur í boxinu. Mér er ýtt tvisvar og svo ýti ég einu sinni en munurinn er sá að hann dettur, hann er stór strákur, ég hélt að hann myndi standa þetta af sér. Þetta er virkilega svekkjandi, menn þurfa að fá að kýtast aðeins og það voru nokkrar ákvarðanir sem hefðu getað fallið okkar megin.“
Valur er núna í sjötta sæti með níu stig eftir sjö leiki.
„Við erum auðvitað ekki sáttir með stöðuna eins og er en mótið er ekki hálfnað svo við hörfum enn þá tíma til að rífa okkur í gang og sækja fleiri stig en við hefðum líka viljað verið með fleiri stig fyrir leikinn.“