KR-ingurinn ungi á sjúkrahús

Sigurður Breki Kárason í leik með KR gegn Val í …
Sigurður Breki Kárason í leik með KR gegn Val í síðasta mánuði. mbl.is/Eyþór

Knattspyrnumaðurinn Sigurður Breki Kárason, ungur miðjumaður KR, var fluttur á sjúkrahús eftir að hafa lent í samstuði í leik liðsins gegn Aftureldingu í 7. umferð Bestu deildarinnar í gærkvöldi.

Sigurður Breki, sem er einungis 15 ára gamall, kom inn á sem varamaður á 79. mínútu en fór aftur af velli aðeins sjö mínútum síðar í kjölfar þess að lenda í samstuði við Bjart Bjarma Barkarson.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, sagði í samtali við Vísi eftir leik að Sigurður Breki hafi verið fluttur á sjúkrahús.

Hefur lifað af 40 meistaraflokksæfingar

„Hann viðbeinsbrotnaði fyrir nokkrum árum og það getur vel verið að það hafi eitthvað svipað gerst núna en það er allt of snemmt að segja til um það,“ sagði Óskar Hrafn við Vísi og hafnaði því að meiðslin hefðu eitthvað með það að gera að Sigurður Breki sé lágvaxinn og ungur.

„Hann hefur lifað af 40 meistaraflokksæfingar með okkur og það er alveg tekið á honum þar. Auðvitað er hann lítill, auðvitað er hann ungur, en nei ég met ekki svo að hann sé í hættu. Það er okkar liðsins að spila á hann þannig að hann hafi tíma á boltanum,“ sagði þjálfarinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert