„Við vorum að vinna vel sem lið og hlupum mikið hver fyrir annan. Það skilaði okkur þremur stigum í kvöld,“ sagði Tómas Orri Róbertsson leikmaður FH í samtali við mbl.is eftir að liðið vann ÍA, 3:1, í fallbaráttuslag í Bestu deildinni í fótbolta.
Með sigrinum fór FH upp úr fallsæti og sendi ÍA þangað. Tómas gerði þriðja mark FH er hann kom liðinu í 3:1 á 81. mínútu.
„Það kom aðeins erfiður kafli í byrjun seinni en við náðum að vinna okkur vel inn í leikinn eftir það. Þetta var sætur sigur,“ sagði Tómas. Markið hans var það fyrsta hjá honum í efstu deild.
„Það var gaman að skora fyrsta markið. Maður er samt lítið að spá í því í svona leik, baráttuleik. Það er gaman að skora og hjálpa liðinu að ná í þrjú stig.“
FH var í botnsætinu fyrir leikinn í kvöld. „Þetta er flottur hópur og það hefur ekki verið neitt stress. Við viljum spila enn betur í næsta leik,“ sagði Tómas.
Hann er uppalinn hjá Breiðabliki en hefur leikið með Gróttu og Grindavík í 1. deildinni undanfarin ár. Hann er nú kominn í stórt hlutverk á sínu fyrsta tímabili með FH.
„Það er búið að vera mjög fínt. Ég fæ að spila mikið og þetta er skemmtilegur hópur. Lífið er gott í Hafnarfirðinum,“ sagði Tómas.