Meistararnir tylltu sér á toppinn

Andri Rafn Yeoman kom Blikum yfir í kvöld og er …
Andri Rafn Yeoman kom Blikum yfir í kvöld og er hér í baráttu við Aron Jóhannsson á Kópavogsvellinum. mbl.is/Eggert

Breiðablik sigraði Val 2:1 í 7. umferð í Bestu deild karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í dag.

Breiðablik fer í toppsætið með 16 stig og Valur er í 7. sæti með níu stig.

Það tók Val aðeins þrjár mínútur að komast yfir en það gerði Tryggvi Hrafn Haraldsson. Það kom langur bolti fram frá Frederik Schram, þeir Patrik Pedersen og Ásgeir Helgi Orrason misstu hann báðir yfir sig í skallaeinvígi og þá stökk Tryggvi á hann, fór einn gegn Antoni og skoraði.

 Breiðablik jafnaði á 30. mínútu og markið skoraði varnarmaðurinn Andri Rafn Yeoman. Hann tók þríhyrning með Óla Val Ómarssyni í teignum, keyrði í átt að markinu og skoraði úr þröngu færi. Þetta var 16. markið hans í efstu deild í 304 leikjum. 

Fyrri hálfleikur var fjörugur og bæði lið fengu ágætis marktækifæri en fyrri hálfleikur endaði 1:1. 

Óli Valur Ómarsson skoraði sigurmarkið á 66. mínútu. Kristinn Steindórsson fékk boltann í teignum frá Valgeiri Valgeirssyni og kom með frábæra sendingu á Óla Val sem skaut föstum bolta í fjær og staðan 2:1 fyrir heimamönnum.

 Bæði lið fengu hálffæri eftir það en ekkert gekk upp þar til á þriðju mínútu uppbótartímans. Þá setti Hólmar Örn Eyjólfsson boltann í markið en Viktor Örn Margeirsson fór niður í teignum og markið dæmt af.

 Uppbótartíminn var fjörugur hjá Val og þeir reyndu eins og þeir gátu að koma boltanum í netið. Aron Jóhannsson var mjög nálægt því á tíundu mínútu uppbótartímans en hann átti skalla rétt yfir eftir aukaspyrnu og leikurinn endaði 2:1 fyrir heimamönnum.

Breiðablik 2:1 Valur opna loka
90. mín. Valur fær hornspyrnu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka