Stjarnan og Víkingur gerðu 2:2-jafntefli í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, mætti í viðtal til mbl.is eftir leik.
„Þetta var skemmtilegur fótboltaleikur. Við vorum slakir í fyrri hálfleik en náðum að laga ýmsilegt og ég var mjög ánægður með seinni hálfleikinn,“ sagði Jökull í viðtali við mbl.is eftir leik.
Þið voruð slakir í fyrri hálfleiknum en áttuð góðan seinni. Hvað breyttist hjá ykkur í síðari hálfleik?
„Við vorum fyrst og fremst hugrakkari og keyrðum aðeins meira fram á við og betri hreyfing. Ég held að það hafi verið fyrst og fremst þetta,“
Það var mikil spenna undir lokin í stöðunni 2:2 og gátu bæði lið stolið sigrinum.
„Tvö sterk lið, þeir voru betri í fyrri hálfleik og við betri í seinni. Bæði lið hefðu getað tekið þetta í lokin og bæði lið voru að reyna að sækja sigurinn sem er bara skemmtilegt. Þannig viljum við hafa alvöru fótboltaleiki,“ sagði Jökull
Stjarnan fer vestur í næstu umferð og mætir öflugu liði Vestra.
„Við gerum þennan leik upp og lögum það sem við þurfum að laga eftir hann og svo undirbúum við þær áherslur sem við viljum leggja í þann leik og gera betur í dag,“ sagði Jökull að lokum.