Einn af leikjahæstu mönnum efstu deildar karla í fótbolta komst enn ofar í gærkvöld og tveir markaskorarar náðu áföngum þrátt fyrir að lið þeirra hefðu tapað í sjöundu umferð Bestu deildarinnar.
Andri Rafn Yeoman, hinn reyndi leikmaður Breiðabliks, komst í gærkvöld í fjórða sætið yfir leikjahæstu menn deildarinnar frá upphafi. Hann lék sinn 304. leik í deildinni fyrir Breiðablik og er þar með búinn að jafna við fyrrverandi samherja sinn, markvörðinn Gunnleif Gunnleifsson, sem einnig lék 304 leiki í deildinni á löngum ferli.
Andri hélt upp á þennan áfanga með því að skora fyrra mark Blikanna í sigrinum á Val, 2:1, á Kópavogsvelli. Það var langþráð mark því Andri komst síðast á blað í deildinni 27. júní árið 2021, þegar hann skoraði sigurmark Breiðabliks gegn HK í Kórnum, 3:2, en þetta var 77. leikur hans í deildinni frá þeim tíma.
Viktor Jónsson skoraði sitt 120. deildamark á ferlinum þegar hann jafnaði fyrir Skagamenn gegn FH á Akranesvelli í gærkvöld. Því miður fyrir Viktor tapaði ÍA leiknum að lokum, 3:1. En hann hefur nú skorað 41 mark í efstu deild og 79 mörk í 1. deild.
Aðeins einn leikmaður sem hefur tekið þátt í allri deildakeppninni á þessu ári hefur skorað fleiri deildamörk hér á landi en Viktor. Það er Valsmaðurinn Patrick Pedersen sem er kominn með 122 mörk, öll í efstu deild.
Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði sitt 70. deildamark á ferlinum þegar hann kom Val yfir gegn Breiðabliki í Kópavogi strax á 3. mínútu. Þar af eru 59 mörk í efstu deild fyrir Val og ÍA, fjögur fyrir Kára í 3. deild, fjögur fyrir Lilleström í norsku B-deildinni og þrjú fyrir Halmstad í tveimur efstu deildum Svíþjóðar.
FH-ingar léku tímamótaleik þegar þeir sóttu Skagamenn heim í gærkvöld. Þetta var 800. leikur Hafnarfjarðarliðsins í efstu deild. Sigurinn er númer 365 í röðinni en liðið hefur gert 185 jafntefli og tapað 250 leikjum frá því það lék fyrst í deildinni árið 1975.
Markahæstir eftir sjö umferðir:
6 Eiður Gauti Sæbjörnsson, KR
6 Patrick Pedersen, Val
4 Daníel Hafsteinsson, Víkingi
4 Jóhannes Kristinn Bjarnason, KR
4 Tobias Thomsen, Breiðabliki
4 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val
4 Viktor Jónsson, ÍA
4 Örvar Eggertsson, Stjörnunni