Aldís sleit krossband – Sandra tekur hanskana af hillunni

Aldís Guðlaugsdóttir og Sandra Sigurðardóttir.
Aldís Guðlaugsdóttir og Sandra Sigurðardóttir. Ljósmynd/Samsett

Aldís Guðlaugsdóttir, markvörður FH í knattspyrnu, varð fyrir því óláni að slíta krossband í leik gegn Þrótti úr Reykjavík í Bestu deildinni á laugardaginn.

Guðni Eiríksson, þjálfari FH, staðfesti ótíðindin í samtali við Fótbolta.net.

Tímabili Aldísar er þar með lokið en FH hefur gripið til þess ráðs að fá hina margreyndu Söndru Sigurðardóttur að neyðarláni frá Val, en hún lék síðast sumarið 2023.

FH er ekki með varamarkvörð og mun því geta fengið Söndru að láni þrátt fyrir að félagaskiptaglugginn sé lokaður.

Í umfjöllun Fótbolta.net kemur fram að hún muni spila með FH að minnsta kosti fram að EM-pásu í júlí.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert