Óvæntur sigur Hauka - HK í annað sætið

Kristín Fjóla Sigþórsdóttir, fyrirliði Hauka, og Harpa Karen Antonsdóttir úr …
Kristín Fjóla Sigþórsdóttir, fyrirliði Hauka, og Harpa Karen Antonsdóttir úr Fylki í kapphlaupi um boltann í Árbænum í kvöld. mbl.is/Eggert

Nýliðar Hauka unnu óvæntan sigur á Fylki, 2:1, þegar liðin mættust í fjórðu umferð 1. deildar kvenna í knattspyrnu í Árbænum í kvöld.

Berglind Þrastardóttir kom Haukum yfir á 8. mínútu en Birna Kristín Eiríksdóttir fyrir Fylki á 53. mínútu. Rakel Lilja Hjaltadóttir skoraði síðan sigurmark Hafnarfjarðarliðsins á 83. mínútu. 

Liðin eru því bæði um miðja deild með sex stig eftir fjóra leiki.

ÍA og Keflavík skildu jöfn í Akraneshöllinni, 1:1. Sunna Rún Sigurðardóttir kom Skagakonum yfir á 48. mínútu en Hilda Rún Hafsteinsdóttir jafnaði fyrir Keflvíkinga á 74. mínútu. Bæði lið eru með fimm stig í sjöunda og áttunda sæti deildarinnar.

Grindavík/Njarðvík vann dramatískan sigur á Gróttu, 3:2, í Njarðvík eftir að Seltirningar voru tveimur mörkum yfir í hálfleik. Lovísa Scheving og Sigrún Ösp Aðalgeirsdóttir skoruðu þá fyrir Gróttu. Danai Kaldaridou, Emma Phillips og Tinna Hrönn Einarsdóttir svöruðu fyrir Grindavík/Njarðvík í síðari hálfleik og sigurmark Tinnu kom beint úr hornspyrnu rétt  fyrir leikslok.

Grindavík/Njarðvík er með sjö stig í þriðja sæti deildarinnar en Grótta er með þrjú stig í næstneðsta sætinu.

HK komst í annað sætið með sigri á Aftureldingu í Kórnum, 3:0. HK er komið með níu stig eins og topplið ÍBV sem vann KR 4:0 fyrr í kvöld en Afturelding situr eftir stigalaus á botni deildarinnar. Isabella Eva Aradóttir skoraði í fyrri hálfleik og Ísabel Rós Ragnarsdóttir bætti við tveimur mörkum í síðari hálfleik eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert