Valur og Víkingur skildu jöfn, 1:1, í Reykjavíkurslag á Hlíðarenda í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld.
Katla Sveinbjörnsdóttir markvörður var hetja Víkings en hún varði vítaspyrnu frá Jordyn Rhodes í lok uppbótartíma leiksins.
Hvorugt liðið nær því enn að vinna leik en þetta er fyrsta stig Víkings í fimm leikjum og fyrsta stig Vals í fjórum leikjum.
Valur er með 8 stig í sjöunda sæti deildarinnar en Víkingur er með 4 stig í níunda og næstneðsta sætinu.
Valskonur voru sterkari frá byrjun og fyrsta hættulega færið kom á 13. mínútu þegar Katla Sveinbjörnsdóttir í marki Víkings varði fast skot Ragnheiðar Þórunnar Jónsdóttur.
Stuttu síðar skallaði Lillý Rut Hlynsdóttir yfir mark Víkings af markteig eftir hornspyrnu Önnu Rakelar Pétursdóttur frá hægri.
Valur komst yfir á 30. mínútu þegar Ragnheiður Þórunn tók hornspyrnu frá vinstri og við stöngina nær skallaði Fanndís Friðriksdóttir boltann laglega í markhornið fjær, 1:0.
Sex mínútum síðar sluppu Víkingar vel í stórsókn Vals þar sem Ragnheiður var enn og aftur hættuleg og átti fyrirgjöf frá hægri þar sem boltinn small í stönginni fjær og út í teiginn þar sem Víkingar björguðu á síðustu stundu.
Víkingur fékk sitt eina umtalsverða færi í fyrri hálfleik í uppbótartímanum þegar Bergdís Sveinsdóttir sneri sér með boltann og skaut frá vítateig hárfínt yfir þverslána.
Staðan var 1:0 í hálfleik og mjög verðskulduð forysta.
Víkingur fékk fyrsta færi seinni hálfleik þegar Bergdís kastaði sér fram og skallaði á markið eftir fyrirgjöf Þórdísar Hrannar Sigfúsdóttur en beint á Tinnu Brá Magnúsdóttur í marki Vals.
Og á 54. mínútu jafnaði Víkingur. Þórdís Hrönn kom með góða sendingu frá hægri inn á markteiginn þar sem Dagný Pétursdóttir var mætt og afgreiddi boltann í netið, 1:1.
Aðeins tveimur mínútum síðar átti Jordyn Rhodes hættulegan skalla að marki Víkings en framhjá.
Natasha Anasi var nærri því að koma Val yfir á 70. mínútu þegar hún skallaði framhjá markinu eftir aukaspyrnu og á 76. mínútu átti Fanndís mikinn sprett fram völlinn og átti hættulegt skot þar sem boltinn straukst við stöngina fjær.
Í uppbótartíma fékk Valur sannkallað dauðatækifæri til að tryggja sér sigurinn þegar dæmd var vítaspyrna. Boltinn fór í hönd varnarmanns í fyrirgjöf Fanndísar.
Jordyn Rhodes fór á vítapunktinn en Katla markvörður var hetja Víkings þegar hún varði spyrnu hennar, og þar með varð jafntefli niðurstaðan.