Keflavík skoraði sex – Njarðvík vann í Kórnum

Tómas Bjarki Jónsson fyrirliði Njarðvíkur skallar frá í Kórnum í …
Tómas Bjarki Jónsson fyrirliði Njarðvíkur skallar frá í Kórnum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Keflavík er áfram með eins stigs forskot á toppi 1. deildar karla í fótbolta eftir afar sannfærandi heimasigur á Leikni úr Reykjavík, 6:0, í kvöld. Keflavík er nú með níu stig eftir fjóra leiki.

Kári Sigfússon var í miklu stuði fyrir Keflvíkinga og skoraði þrennu. Gabríel Aron Sævarsson, Ernir Bjarnason og Ari Steinn Guðmundsson komust einnig á blað.

Grannarnir í Njarðvík eru enn í öðru sæti eftir góða ferð í Kórinn þar sem liðið lagði HK, 3:1. Tómas Bjarki Jónsson kom Njarðvík yfir á 6. mínútu en Dagur Orri Garðarsson jafnaði á 40. mínútu. Dominik Radic kom Njarðvík aftur yfir á 49. mínútu og uppaldi HK-ingurinn Amin Cosic gulltryggði sigurinn í uppbótartíma.

ÍR er með átta stig eins og Njarðvík eftir heimasigur á nýliðum Selfoss, 2:0. Kristján Atli Marteinsson gerði fyrra markið á 58. mínútu og Bergvin Fannar Helgason það seinna á 65. mínútu.

Þróttur úr Reykjavík fór úr áttunda sæti og upp í það fjórða með útisigri á Fylki, 2:1. Aron Snær Ingason og Liam Daði Jeffs komu Þrótti í 2:0, áður en Ásgeir Eyþórsson minnkaði muninn í uppbótartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert