Fram sigraði Tindastól 1:0 í 7. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta á Framvellinum í Úlfarsársdal í dag.
Murielle Tiernan, fyrrverandi leikmaður Tindastóls, skoraði sigurmarkið í uppbótartíma leiksins.
Fram er þá komið með 9 stig en Tindastóll er með 6 stig.
Fyrri hálfleikurinn var afar gæðalítill og mikið um hnoð um allan völl. Það vantaði að liðin þorðu að halda í boltann og hreyfa andstæðingin aðeins áður en farið var fram völlinn.
Eftir 25 mín náðu heimakonur í Fram hinsvegar aðeins að slaka á og halda í boltann. Þær áttu flottar sóknir en vantaði aðeins upp á að klára sókninar.
Murielle Tiernan átti 2 ágætis skalla og Kamila átti flottan sprett en skotið rataði ekki á markið, síðan voru nokkur skot sem voru ósannfærandi.
Besta færi fyrri hálfleiks áttu samt gestirnir. Birgitta kemst inn í sendingu hjá Fram og sleppur ein í gegn, Elaina markvörður Fram kemur út og ver glæsilega frá henni og boltinn siglir framhjá. 0:0 í hálfleik var niðurstaðan.
Þegar seinni hálfleikurinn hófst þá gerði maður sér vonir að hann yrði nú skemmtilegri en sá fyrri, það var ekki. Það gerðist ekkert þessar seinni 45 mínútur fyrr en í uppbótartímanum.
Þá fór Fram í sókn og áttu gott spil upp hægri vænginn og boltinn barst á Söru Svanhildi sem átti frábæra sendingu á nær svæðið þar sem Murielle mætti og setti boltann í markið. 1:0 Fram, var niðurstaðan Tindastóll náði ekki að jafna á mínútunni sem var eftir.
Leikurinn bar öll þess merki að enda með 0:0 jafntefli og sigurmarkið kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Bæði lið voru að leggja sig fram, en vantaði gæði í að halda bolta og skapa sér færi. Það eru hins vegar mörkin sem telja og Fram skoraði markið sem þurfti til að klára leikinn.