Eins og að hlusta á viðtal við eldfjallafræðing

Davíð Smári Lamude er öllum að óvörum með Vestra í …
Davíð Smári Lamude er öllum að óvörum með Vestra í toppbaráttu. Ljósmynd/Halldór Sveinbjörnsson

Vestri er í öðru sæti Bestu deildar karla í fótbolta með 16 stig eftir sigur á Stjörnunni á Ísafirði í kvöld, 3:1.­

Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra mætti í viðtal eftir leik og var spurður um fyrstu viðbrögð.

„Ég er gríðarlega sáttur með karakterinn sem við sýndum hérna í kvöld. Við mættum einfaldlega ekki til leiks hérna í fyrri hálfleik þ.e.a.s. fyrstu 10-15 mínúturnar vorum við skelfilegir. Ég verð bara að taka það á mig ég reyndi að stilla spennustigið hátt og ætluðum að vera agríssívír í byrjun.

Mér fannst það koma í bakið á okkur, við vorum ekkert með þarna fyrstu 20 mínúturnar. Þurftum smá tíma til að koma okkur inn í leikinn og sýndum svo fína spilkafla eftir það. Gátum tekið smá veganesti af þeirri spilamennsku með okkur inn í hálfleik.

Í hálfleik skerptum við aðeins á hlutunum og komum framar á þá og vorum grimmari. Mér fannst það ganga gríðarlega vel upp. Við fundum Daða betur í hálfsvæðunum og það gekk vel."

Þetta var leikur tveggja hálfleika, ég held að xG hafi verið 0,06 í hálfleik og ekkert benti til þess að þið væruð að fara að jafna. Síðan eigið þið seinni háfleikinn og eigið ykkar bestu frammistöðu í sumar. Hvað finnst þér um það?

„Ég ætla ekki að ganga svo langt að segja að þetta hafi verið okkar besta. Talandi um xG, það er eins og að hlusta á viðtal við eldfjallafræðing, það er oft skrýtið oft á tíðum. Ég er gríðarlega ánægður með leikinn og á eiginlega engin orð yfir spilamennskunni hérna í seinni hálfleik. Hrikalega stór karakter og hugrekki sem vantaði í fyrri hálfleik. Ég er bara sáttur.“

Víkingur er næst, hvernig líst þér á þann leik?

„Bara gríðarlega vel og ég var spurður áðan hvert þetta Vestra lið gæti farið og hvað stuðningsmenn gæti dreymt um. Ég svaraði að við gætum dreymt um að mæta Víkingi á heimavelli og það er bara það sem er næst," sagði Davíð Smári Lamude.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert