Vestri sigraði Stjörnuna, 3:1, í 8. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Ísafirði í kvöld.
Vestri og Stjarnan mættust í 8. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Ísafirði í kvöld klukkan 19.15. Vestri var í þriðja sæti deildarinnar með 13 stig og Stjarnan var í sjötta sæti með 10 stig fyrir leikinn.
Leikurinn byrjaði með miklum látum. Stjarnan byrjaði með boltann og hélt honum nánast fyrstu 10 mínúturnar í leiknum. Þeir ógnuðu strax á fimmtu mínútu þegar Guðmundur Baldvin átti skot sem Vestramenn komu aftur fyrir.
Andri Rúnar fékk boltann á nærstöngina eftir hornið og átti gott skot sem fór fram hjá. Það var svo á 6. mínútu sem Stjarnan braut ísinn. Boltinn barst inn í teig þar sem bæði Andri Rúnar og Örvar Eggerts hittu ekki boltann, en boltinn barst á Guðmund Nökkva sem setti boltann snyrtilega fram hjá Smit. 1:0 Stjarnan eftir sex mínútur.
Stjarnan hélt áfram að pressa og var með völdin fyrstu 20 mínúturnar. Þá tók Vestri við sér og náði aðeins að halda í boltann og koma sér inn í leikinn. Þeir sköpuðu sér hins vegar ekkert í fyrri hálfleik og voru ekki nálægt því að jafna. Andri Rúnar komst svo í gegn á 31. mínútu en skot hans endaði í þverslánni og heimamenn ljónheppnir að lenda ekki 2:0 undir. Stjörnumenn fóru því með verðskuldaða 1:0 forystu inn í hálfleik.
Vestri byrjaði seinni hálfleik af krafti og var allt annað sjá þá eftir hlé. Þeir voru yfir í öllum þáttum leiksins og það skilaði sér á 49. mínútu. Gunnar Jónas keyrir í átt að teignum og tekur þríhirningsspil við Montiel fyrir utan teig og á frábært skot með vinstri fæti alveg út við stöng, 1:1 eftir 49 mínútur.
Gunnar var svo nálægt því að skora aftur á 63. mínútu en Árni í marki Stjörnunnar varði vel. Það var svo á 75. mínútu sem Vestri komst yfir. Montiel átti góða fyrirgjöf á Daða Berg sem átti skalla í átt að marki sem varnarmenn Stjörnunnar komust fyrir. Hins vegar barst boltinn aftur á Daða sem lagði hann í markið og Vestri komnir 2:1 yfir.
Vestri komst síðan 3:1 yfir á 89. mínútu þegar Silas slapp upp hægra megin og beið bara í rólegheitum að Daði skilaði sér inn á teig og renndi boltanum á hann og hann gat ekki annað en skorað.
Það benti ekkert til þess í hálfleik að Vestri væri að fara jafna, en þeir áttu frábæran seinni hálfleik. Stjarnan voru flottir í fyrri hálfleik en mættu hreinlega ekki til leiks í þeim seinni, algjörlega andlausir. 3:1 sigur Vestra sem kemur sér upp í 16 stig en Stjarnan er enn með 10 stig.
Seinni hálfleikurinn er það besta sem Vestramenn hafa sýnt í sumar, þeir voru stórkostlegir og verðskulduðu sigurinn.