Gerðum það svo sannarlega ekki í kvöld

Jón Þór Hauksson á Víkingsvellinum í kvöld.
Jón Þór Hauksson á Víkingsvellinum í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Jón Þór Hauksson þjálfari Skagamanna var ánægður með frammistöðu sinna manna þrátt fyrir ósigur, 2:1, gegn Víkingum í Bestu deild karla í fótbolta í Fossvoginum í kvöld.

„Mér fannst ekkert vanta upp á hjá okkur í kvöld. Mér fannst við vera frábærir, það var frábær andi og hugarfar í liðinu, hvernig menn unnu saman og töluðu saman, unnu hver fyrir annan og lögðu hart að sér. Þetta var bara svolítið stöngin út hjá okkur í dag," sagði Jón Þór við mbl.is eftir leikinn.

Það var kraftur í liðinu í kvöld og þið gáfuð Víkingunum ekkert eftir.

„Já, það var mikill kraftur í liðinu og ef við höldum áfram með þessum hætti þá koma stigin og þá koma úrslitin, ég hef engar áhyggjur af því. Ég er bara hrikalega ánægður með hvernig strákarnir svöruðu. Við erum að vinna okkur út úr ákveðnum vandamálum, það er öllum ljóst, en ég er ánægður með hvernig þeir hafa unnið í þeim.“

Þið lendið 2:0 undir gegn mjög sterku liði en má kannski segja að það sé karakter að svara því og vera inni í leiknum allt til leiksloka?

Marko Vardic skýtur framhjá marki Víkings í einu besta færi …
Marko Vardic skýtur framhjá marki Víkings í einu besta færi Skagamanna. mbl.is/Ólafur Árdal

„Heldur betur en mér fannst Víkingarnir ekki vera með sérstaka yfirhönd í leiknum á þeim kafla sem þeir náðu tveggja marka forystu. Þetta voru tvær fyrirgjafir sem skiluðu sér í mörkum. Heilt yfir gáfum við fá færi á okkur í leiknum en auðvitað er ýmislegt sem við þurfum að halda áfram að vinna í og laga og þetta er eitt af þeim.

Ég sammála því að við sýndum frábæran karakter, og höfum fyrr í sumar lent í þessari stöðu og brotnað, en við gerðum það svo sannarlega ekki í kvöld og ég er gríðarlega ánægður með það.

Víkingar eru auðvitað með frábært og vel þjálfað lið og þeir fá ekki mörg mörk á sig hérna á heimavelli. En við reyndum svo sannarlega og gáfumst aldrei upp og ég er ánægður með það.“

Þið mættuð toppliði í kvöld, það eru væntanlega ekki þeir leikir sem þið munuð standa og falla með í ár?

„Nei, alls ekki. Við gerum sumarið ekki upp með þessum leikjum en auðvitað vildum við allir fá úrslit og stig úr þessum leik og jafnvel vinna hann, eins og við gerðum í fyrra og oft áður á móti Víkingi. En það gekk ekki í dag," sagði Jón Þór Hauksson sem fékk rautt spjald í lok leiksins vegna mótmæla og verður í banni í næsta leik sem er útileikur gegn Breiðabliki næsta fimmtudagskvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert