Ingvar Jónsson markvörður Víkings er ánægður með að vera á toppi Bestu deildarinnar í fótbolta með liðinu eftir sigurinn á Skagamönnum í Fossvoginum í kvöld, 2:1.
Víkingar þurftu að hafa mikið fyrir því að sigla sigrinum heim þrátt fyrir að hafa náð tveggja marka forystu í fyrri hálfleiknum.
„Já, þetta var alvöru barningur, fyrst við náðum ekki þriðja markinu til að drepa leikinn og þeir komust inn í þetta með því að skora, þá gat allt gerst. Þeir eru með kröftuga leikmenn sem berjast mikið þannig að þetta var mjög erfitt."
Þið fenguð á ykkur skrýtið mark eftir skyndisókn ÍA uppúr ykkar eigin hornspyrnu?
„Já, þetta var mjög sérstakt og dálítið tilviljanakennt. Danni átti með tvö skot á markið hjá þeim og boltinn skaust fram á völlinn. Ég var á báðum áttum um hvort ég ætti að "svípa" eða ekki en leist ekkert á hvað Haukur var hraður svo ég ákvað að bakka og reyna að verja.
Ég held að það hafi verið rétt ákvörðun hjá mér en hann gerði þetta bara mjög vel. Skagamenn voru fínir í kvöld, þetta er besti leikurinn sem ég hef séð hjá þeim í sumar og þeir eiga eftir að vera fínir í sumar.
Víkingar eru í sérstakri stöðu eftir að hafa spilað í Sambandsdeildinni fram í febrúar og Ingvar sagði að þetta Evrópuævintýri hefði haft sínar aukaverkanir.
„Menn hafa dálítið lent í vöðvameiðslum. Sveinn Gísli þurfti að fara útaf í byrjun leiks í dag, ég lenti í þess um daginn og fleiri hafa meiðst. Menn hafa aldrei áður farið í gegnum svona langt tímabil án þess að taka neina pásu. Sú pása sem við fengum í janúar var þannig að við vorum alltaf að hugsa um leikina sem voru framundan svo þetta var aldrei nein hvíld, þó við værum ekki að æfa fótbolta með liðinu.
Þetta er bara nýtt fyrir okkur, en við erum með stóran og breiðan hóp og erum á toppnum eftir þennan sigur í kvöld þrátt fyrir meiðslin sem við höfum gengið í gegnum þannig að ég held að við eigum bara eftir að slípa okkur betur saman og verða enn betri," sagði Ingvar Jónsson.