Helgi Guðjónsson er í nýju hlutverki um þessar mundir í liði Víkings sem varnarmaður en var eftir sem áður með bæði mark og stoðsendingu í sigri á ÍA, 2:1, í Bestu deildinni í fótbolta á Víkingsvellinum í kvöld.
Helgi hefur jafnan leikið sem sóknarmaður en eftir að Karl Friðleifur Gunnarsson varð fyrir meiðslum setti Sölvi Geir Ottesen hann í nýja stöðu sem vinstri bakvörður. Helgi sagði við mbl.is eftir leikinn í kvöld að þetta hefði bara vanist vel.
„Þetta var áhugaverð hugmynd til að byrja með en síðan lærir maður á stöðuna og venst henni. Það eru mikil hlaup í þessu því þrátt fyrir varnarskylduna á ég að skila mér inn í vítateig mótherjanna, svo þetta er bæði krefjandi og skemmtilegt.
Ég get vel hlaupið, og svo snýst þetta um að beygja hnén og verjast á móti manni með boltann. Þetta eru engin geimvísindi, þannig séð," sagði Helgi.
„Það hafa fleiri komið inn í þetta hlutverk og Kalli lék frábærlega sem bakvörður í fyrra. Þegar hann meiddist varð að koma maður í manns stað, það þurfti einhver að taka að sér þetta hlutverk. Það kom í minn hlut og það er bara skemmtilegt. Á meðan ég kemst í færi, næ að skora og leggja upp mörk, og á meðan liðið vinnur, þá er þetta fullkomið," sagði Helgi.
Víkingar þurftu að hafa mikið fyrir því að vinna Skagamenn þrátt fyrir að þeir kæmust í 2:0 í fyrri hálfleiknum.
„Já, heldur betur, maður veit aldrei hvað gerist þegar munar bara einu marki. Við fengum á okkur mark úr eigin horni og þar með var meira líf í seinni hálfleiknum. Mér fannst við óheppnir að ná ekki að komast í 3:1 og jafnvel 4:1 í færunum sem við fengum í seinni hálfleik en þá snerist þetta um að halda þetta út og sigla stigunum heim. Það mátti ekkert klikka," sagði Helgi Guðjónsson.