Þór/KA og Stjarnan áttust við í skemmtilegum leik í Boganum á Akureyri í 7. umferð Bestu deildar kvenna sem endaði með 1:0-sigri Þórs/KA. Nú er Þór/KA í 4. sæti, stigi á eftir toppliðunum þremur. Stjarnan er enn í fimmta sætinu með níu stig.
Fyrir leikinn voru liðin í fjórða og fimmta sæti í deildinni með tólf og níu stig og því mátti búast við spennandi leik. Leikurinn byrjaði nokkuð rólega en eftir u.þ.b. tíu mínútur fór allt að gerast.
Þór/KA ógnaði marki Stjörnunnar töluvert og á endanum kom mark þegar Sandra María Jessen smellti boltanum framhjá Auði Sveinbjörnsdóttur Scheving á 21. mínútu.
Í kjölfarið fóru Stjörnukonur að ógna marki Þórs/KA og hefðu þær getað fengið vítaspyrnu á 37. mínútu þegar Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir féll niður í teignum eftir baráttu við Angelu Mary Helgadóttur, en ekkert var dæmt.
Staðan var því 1:0 í hálfleik, heimakonum í vil.
Seinni hálfleikur var mun jafnari en ekki mörg hættuleg færi litu dagsins ljós. Eftir mikla baráttu á lokamínútunum náðu heimakonur að halda út og landa sterkum 1:0 sigri.