Valur sannfærandi gegn vængbrotnum Eyjamönnum

Aron Jóhannsson úr Val með boltann í dag.
Aron Jóhannsson úr Val með boltann í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Valur vann öruggan heimasigur á ÍBV, 3:0, í 8. umferð Bestu deildar karla í fótbolta á Hlíðarenda í dag. Valur fór upp í fjórða sæti með sigrinum, þar sem liðið er með 12 stig. ÍBV er í níunda sæti með átta.

ÍBV lék án Omars Sowe, Olivers Heiðarssonar og Sigurðar Arnars Magnússonar, sem eru allir að glíma við meiðsli, og Valsmenn nýttu sér það.

Leikurinn fór rólega af stað en um leið og Valsmenn komust yfir á 28. mínútu var ljóst í hvað stefndi. Jovan Mitrovic setti þá boltann í eigið net af stuttu færi eftir hornspyrnu frá Birki Heimssyni.

Örfáum augnablikum síðar bætti Patrick Pedersen við öðru marki Vals með glæsilegu skoti utarlega í teignum upp í vinkilinn eftir sendingu frá Jónatan Inga Jónssyni.

Valsmenn voru ekki hættir í fyrri hálfleik, því áðurnefndur Birkir skoraði þriðja mark Vals á 43. mínútu með afgreiðslu af stuttu færi eftir að Tryggvi Hrafn Haraldsson skallaði boltann á hann. Voru hálfleikstölur því 3:0.

Seinni hálfleikurinn var með allra rólegasta móti. Valsmenn voru lítið að reyna að bæta í og hinum megin vantaði meiri gæði í lið ÍBV. Því voru ekki skoruð fleiri mörk á Hlíðarenda í dag.

Valur 3:0 ÍBV opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti tvær mínútur í uppbótartíma. Mátti bæta við meira en það eru allir hættir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert