FH sigraði Breiðablik 2:0 í áttundu umferð í Bestu deild karla í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld.
Breiðablik er í þriðja sæti með 16 stig og FH stökk upp um fjögur sæti og er í sjöunda sæti með tíu stig.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en lítið var um hættuleg færi. Á 27. mínútu fékk Kjartan Kári Halldórsson besta færi fyrri hálfleiks þegar hann fékk sendingu í gegn og komst einn á móti markmanni en hann þrumaði boltanum fram hjá.
Björn Daníel Sverrisson kom FH yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks með sterkum skalla eftir fyrirgjöf frá Kjartani Kára.
Blikar fengu frábært tækifæri til þess að jafna strax í upphafi seinni hálfleiks þegar Kristófer Ingi Kristinsson átti skalla rétt yfir markið.
Sigurður Bjartur Hallsson skoraði seinna mark FH á 67. mínútu. Kjartan Kári kom með fyrirgjöf sem fór í varnarmann og hátt upp í loftið, boltinn datt svo fyrir Sigurð sem setti boltann í netið af stuttu færi.
FH-ingar leyfðu Blikum að vera með boltann, pressuðu þá ekki hátt uppi og Blikar áttu í erfiðleikum með að koma sér í færi.
Valgeir Valgeirsson fékk besta færi Breiðabliks í seinni þegar hann átti skot fyrir utan vítateig sem fór rétt fram hjá og leikurinn endaði 2:0.