„Þetta var barningsleikur sem dettur þeirra megin,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson fyrirliði Breiðabliks eftir 2:0-tap liðsins gegn FH á útivelli í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld.
„Þeir eru góðir í þeim leikstíl að vera lágt niðri með liðið, duglegir og fastir fyrir. Þeir múra fyrir og beita síðan löngum boltum og skyndisóknum og gera það vel. Það var ekki nógu mikið af tækifærum,“ sagði Höskuldur í viðtali við mbl.is í dag.
Grasið nokkuð að stríða ykkur?
„Nei nei, grasið var bara prýðilegt, blautt og fín aðstaða, við bara náðum ekki að koma okkur í nógu góðar stöður og gera nógu vel úr stöðunum sem við fengum.“
Breiðablik er í þriðja sæti eftir tapið en hefði farið á toppinn með sigri.
„Þetta er pirrandi en þetta er bara áttunda umferð og það er nóg eftir. Þetta var ekki nógu góður leikur en ég hef engar áhyggjur, við erum svekktir núna og svo bara áfram gakk.“
Næsti leikur Blika er gegn ÍA á heimavelli.
„Það verður allt annar leikur hjá okkur heima. Við ætlum bara að vera skarpari sóknarlega.“
Blikar misstu Andra Rafn Yeoman úr byrjunaliðinu í upphitun og Aron Bjarnarsson var ekki í hóp í dag.
„Andri fékk eitthvað í mjóbakið, ég veit ekki alveg ,vonandi ekkert alvarlegt. Aron er búinn að vera smá tæpur í náranum og við vildum bara ekki taka neina sénsa.“