KR og Vestri eru ansi nálægt því að komast í sögubækurnar, Vesturbæingarnir fyrir markaskor og Vestfirðingarnir fyrir fá mörk sem eru skoruð hjá þeim í fyrstu átta umferðunum í Bestu deild karla í fótbolta.
KR-ingar hafa skorað 24 mörk til þessa, þrjú að meðaltali í leik, og hafa samt aðeins unnið tvo af fyrstu átta leikjum sínum.
Aðeins eitt lið hefur skorað fleiri mörk í fyrstu átta umferðum deildarinnar á þessari öld. Það var Breiðablik árið 2022 en þá skoraði Kópavogsliðið 25 mörk í fyrstu átta leikjunum, vann þá alla og varð Íslandsmeistari um haustið.
Fimm sinnum á 20. öldinni skoraði lið fleiri en 24 mörk í fyrstu átta leikjunum og þar voru KR-ingar sjálfir fjórum sinnum að verki.
Þeir skoruðu 32 mörk í fyrstu átta leikjunum árið 1959, fyrsta árið sem leikin var tvöföld umferð í deildinni, og bættu um betur ári síðar þegar mörkin voru 33. Það er met sem hefur aldrei verið slegið. KR-ingar skoruðu sjálfir 28 mörk í fyrstu átta leikjunum 1961 og 25 mörk árið 1968.
Þar fyrir utan eru það bara Skagamenn sem hafa skorað fleiri mörk en KR í ár en ÍA skoraði 27 mörk í fyrstu átta leikjum deildarinnar árið 1993.
Vestri hefur aðeins fengið á sig fjögur mörk í fyrstu átta leikjunum og það er afar sjaldgæft í deildinni.
Aðeins tvisvar á þessari öld hafa lið sýnt betri varnarleik. Víkingar fengu á sig tvö mörk í fyrstu 17 leikjunum árið 2023 og FH-ingar þrjú mörk árið 2014.
Hjá Víkingum var um metjöfnun að ræða en Fram fékk á sig tvö mörk í fyrstu leikjunum árið 1988 og deilir því metinu með grönnum sínum. Svo merkilegt sem það er, þá er markatala beggja liða eftir átta leiki þessi ár sú sama, 17:2.
Stígur Diljan Þórðarson skoraði sitt fyrsta deildamark á ferlinum þegar hann kom Víkingum yfir í 2:1 sigrinum á ÍA á laugardagskvöldið.
Björn Daníel Sverrisson er orðinn sjötti markahæsti FH-ingurinn í efstu deild frá upphafi. Hann skoraði sitt 52. mark fyrir félagið gegn Breiðabliki í gærkvöld og fór uppfyrir Tryggva Guðmundsson sem skoraði 51 mark fyrir FH.
Jakob Byström skoraði tvö mörk í sínum fyrsta leik í deildinni frá upphafi þegar Fram vann KR 3:2 á föstudagskvöldið.
Markahæstir eftir átta umferðir:
7 Patrick Pedersen, Val
6 Eiður Gauti Sæbjörnsson, KR
5 Aron Sigurðarson, KR
4 Daði Berg Jónsson, Vestra
4 Daníel Hafsteinsson, Víkingi
4 Jóhannes Kristinn Bjarnason, KR
4 Tobias Thomsen, Breiðabliki
4 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val
4 Viktor Jónsson, ÍA
4 Örvar Eggertsson, Stjörnunni