Anna María Baldursdóttir fyrirliði Stjörnunnar jafnaði leikjamet félagsins í efstu deild kvenna í fótbolta á sunnudaginn.
Hún lék þá sinn 218. leik fyrir Stjörnuna í deildinni en Garðabæjarliðið mátti þó sætta sig við ósigur, 1:0, gegn Þór/KA í Boganum á Akureyri.
Anna María hefur leikið með meistaraflokki Stjörnunnar samfleytt frá árinu 2010 og þetta er því hennar sextánda tímabil þó hún sé aðeins þrítug að aldri.
Hún jafnaði með þessu met Ásgerðar Stefaníu Baldursdóttur (Öddu) sem lék 218 leiki fyrir Stjörnuna í deildinni frá 2005 til 2018 og þær voru því samherjar með liðinu í níu ár.
Tvær aðrar hafa leikið yfir 200 leiki með Stjörnunni í efstu deild en Auður Skúladóttir lék 209 leiki sem var lengi félagsmet og Harpa Þorsteinsdóttir lék 205 leiki. Anna er sú eina af þeim sem hefur ekki leikið fyrir annað félag.
Kristín Dís Árnadóttir lék sinn 100. leik fyrir Breiðablik í efstu deild þegar liðið tapaði 2:1 fyrir FH. Hún lék fyrr í vor sinn 100. leik í deildinni en Kristín spilaði fjóra leiki með Fylki sem lánsmaður árið 2016.
Dagný Rún Pétursdóttir skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild, í 17. leiknum, þegar hún jafnaði fyrir Víking gegn Val, 1:1.
Markahæstar eftir sjö umferðir:
7 Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Breiðabliki
6 Freyja Karín Þorvarðardóttir, Þrótti
6 Sandra María Jessen, Þór/KA
5 Samantha Smith, Breiðabliki
4 Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki
4 Maya Hansen, FH
4 Murielle Tiernan, Fram