Halldór Árnason, þjálfari Íslandsmeistara Breiðabliks, var óánægður með frammistöðu sinna manna í tapi fyrir ÍA, 4:1, í níundu umferð Bestu deildarinnar á Kópavogsvelli í dag.
Blikaliðið er með 16 stig í þriðja sæti deildarinnar og nú fjórum stigum á eftir toppliði Víkings R.
ÍA komst í 3:0 en Breiðablik minnkaði muninn undir lok fyrri hálfleiksins. Arnór Gauti Jónsson fékk rautt spjald í liði Blika á 69. mínútu og var verkefnið erfitt eftir það.
Hvað gekk ekki upp í leik Blika?
„Dekk í teignum. Ég man ekki á hvaða mínútu þeir skoruðu fyrsta markið en fram að því var þetta algjör einstefna að marki Skagamanna.
Við fáum dauðafæri og góðar stöður og erum með leikinn í okkar höndum. Síðan er þetta langt innkast og horn sem koma leiknum í 2:0 og við gröfum okkur djúpa holu, því miður.
Mér fannst við bregðast báðum mörkum illa andlega. Við fórum frá því sem við vorum að gera. Að lenda 1:0-undir er enginn dauðadómur og við hefðum þurft að halda í það sem við vorum að gera.
Menn urðu hins vegar stressaðir og fóru að gera erfiða hluti að ástæðulausu. Það sendi skilaboð út á við að höggið hafði meiri áhrif á okkur en það ætti nokkurn tímann að hafa, sem er áhyggjuefni,“ sagði Halldór í samtali við mbl.is.
Óli Valur Ómarsson þurfti að fara af velli í fyrri hálfleik vegna meiðsla.
„Hann fékk einhvern verk í hásinn í upphitun sem hann virtist hafa hlaupið úr sér en síðan var hann ekki nógu góður og þurfti að fara af velli.“
Ómar Björn Stefánsson, sem fór mikinn í liði ÍA, gaf Valgeiri Valgeirssyni olnbogaskot undir lok fyrri hálfleiksins og vildu Blikar að hann yrði sendur í sturtu en Twana Khalid Ahmed dómari gaf honum gult spjald.
„Mér finnst leiðinlegt að tala um þetta og kalla eftir einhverjum rauðum spjöldum. Ég var langt frá atvikinu en frá minni sjón gaf hann honum olnbogaskot.
Olnbogaskot er annaðhvort ekkert því dómarinn sá þetta ekki eða beint rautt en dómarinn gefur gult. Ég ætla hins vegar ekki fara kenna því um eitt né neitt. Ef við hefðum unnið leikinn væri ég til að ræða dómgæsluna og uppákomuna sem átti sér stað, þessa tilraunastarfsemi.
Fyrst ég tapaði þá tek ég það á kassann og tala ekkert um dómgæsluna,“ sagði Halldór um atvikið og dómgæsluna.
Þetta var annað tap Breiðabliks í röð. Hvernig ætlar liðið að rífa sig aftur í gang?
„Nú reynir á karakterinn sem hefur í gegnum árin verið mjög sterkur í Breiðabliki. Við mætum á morgun og reynum að rífa okkur í gang andlega og líkamlega. Við höfum nú tvo daga á milli til að búa okkur undir næsta leik. Þetta er bara áfram gakk,“ sagði Halldór.
Breiðablik og flest önnur lið, nema Valur og Fram, fá nú tveggja daga hvíld fyrir næstu umferð sem hefst á sunnudag. Breiðablik hefur tvisvar sinnum á leiktíðinni haft átta daga á milli leikja en nú aðeins tvo. Halldór er ekki parsáttur við þetta fyrirkomulag og ósamræmið.
„Við erum búnir að spila tvisvar sinnum með átta daga á milli í deildinni. Nú vorum við að spila með þriggja daga millibili, við og FH, og fengum einum degi minna í hvíld en hin liðin.
Nú eru tveir dagar á milli leikja hjá flestum liðum. Lið sem hafa tvívegis spilað með átta daga á milli leikja eru nú að spila með tvo daga á milli leikja, sem er mjög sérstakt.
Að spila með tvo daga á milli leikja er eitthvað sem öll knattspyrnusambönd í heiminum forðast eins og heitan eldinn.
Ég skil þetta ekki, en þetta gildir um öll liðin og við getum ekki kvartað yfir því. Auðvitað minnkar þetta gæði leikjanna og setur mikla meiðslahættu á leikmenn að ástæðulausu.
Ég skil að þegar menn eru komnir langt í Evrópu og bikar þá er þetta hluti af þessu. En að spila með stundum tvo daga á milli leikja og stundum átta er í besta falli mjög sérstakt.
Ég man ekki eftir að það hafi verið tveir dagar á milli leikja. Það er eitthvað sem allir forðast og í raun stórhættulegt.
Oft er spilað þétt og stutt á milli leikja en tveir dagar eru eitthvað sem ætti að forðast alveg eins og hægt er,“ bætti Halldór við en Breiðablik heimsækir Víking í gríðarlega mikilvægum leik í næstu umferð.