ÍA skellti Íslandsmeisturum Breiðabliks, 4:1, í níundu umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu í Kópavogi í dag.
ÍA er enn í neðsta sæti en nú með níu stig á meðan Breiðablik er í þriðja sæti með 16 stig.
Skagamenn komust yfir á 29. mínútu leiksins. Þá sendi Jón Gísli Eyland Gíslason boltann hátt inn á teiginn og Viktor Jónsson stangaði boltann fyrir Erik Sanberg sem stangaði boltann í netið, 0:1.
Sex mínútum síðar tvöfaldaði Ómar Björn Stefánsson forystu ÍA. Þá datt boltinn fyrir hann inn á teignum og hann skoraði framhjá Antoni Ara Einarssyni markverði Blika, 0:2.
Eftir annað mark ÍA færðist mikill hiti í leikinn og urðu Blikar pirraðir.
Viktor Jónsson kom ÍA í 3:0 á 40. mínútu. Þá fékk hann sendingu frá Ómari Birni og skoraði af stuttu færi.
Í næstu sókn fékk Breiðablik vítaspyrnu. Þá braut Hlynur Sævar Jónsson á Kristófer Inga Kristinssyni og Twana Khalid Ahmed dómari benti á punktinn. Á hann steig Tobias Thomsen og skoraði af öryggi, 1:3.
Á 44. mínútu gaf síðan Ómar Björn Valgeiri Valgeirssyni olnbogaskot og urðu Blikar æfir og vildu rautt spjald á Ómar. Dómarinn gaf honum hins vegar gult.
Fleiri urðu atvikin en mörkin ekki í fyrri hálfleik og fór ÍA því tveimur mörkum yfir til búningsklefa.
Arnór Gauti Jónsson fékk sitt annað gula spjald og rautt á 69. mínútu fyrir að stöðva Viktor Jónsson í skyndisókn og var Breiðablik því manni færri síðustu 20 mínútur leiksins.
Viktor fékk þrjú dauðafæri í röð í seinni hálfleik til að gera út um leikinn en nýtti þau öll nokkuð illa. Það kom þó ekki að sök og bætti varamaðurinn Gísli Laxdal Unnarsson við fjórða marki gestanna undir blálok leiks þegar hann rúllaði boltanum framhjá Antoni Ara, 1:4.
Breiðablik heimsækir Víking í stórleik næstu umferðar á sunnudaginn kemur en ÍA fær ÍBV í heimsókn.