9. umferð: Langþráð og sögulegt hjá Aroni - Kristinn með stóran áfanga

Aron Jóhannsson hefur nú skorað 100 deildamörk á ferlinum.
Aron Jóhannsson hefur nú skorað 100 deildamörk á ferlinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aron Jóhannsson skoraði langþráð og jafnframt sögulegt mark þegar hann kom Valsmönnum í 2:0 gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ í níundu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í gær.

Aron hafði ekki skorað mark í deildinni síðan 3. september 2023 en þegar það loksins kom var það hans 100. deildamark á ferlinum.

Aron skoraði þarna sitt 18. mark í efstu deild hér á landi, 17 eru fyrir Val og eitt fyrir Fjölni. Hann skoraði einnig 12 mörk fyrir Fjölni í 1. deild. Þá skoraði Aron 23 deildamörk í Danmörku, 29 í Hollandi, 4 í Þýskalandi, 12 í Svíþjóð og 2 í Póllandi áður en hann sneri aftur til Íslands og gekk til liðs við Val árið 2022.

Kristinn Steindórsson náði stórum áfanga á ferlinum þegar Breiðablik mætti ÍA á Kópavogsvellinum í gær. Hann lék þar sinn 350. deildaleik á ferlinum.

Kristinn Steindórsson - 350 deildaleikir heima og erlendis.
Kristinn Steindórsson - 350 deildaleikir heima og erlendis. mbl.is/Ólafur Árdal

Þar af eru 216 leikir í efstu deild á Íslandi, 187 fyrir Breiðablik og 29 fyrir FH, og síðan 113 deildaleikir í Svíþjóð og 21 í Bandaríkjunum.

Vladimir Tufegdzic, sóknarmaðurinn reyndi hjá Vestra, lék sinn 300. deildaleik á ferlinum þegar Vestfirðingarnir mættu Víkingi í toppslag deildarinnar í gær. Þar af eru 104 leikir í efstu deild hér á landi með Vestra, Grindavík, KA og Víkingi en Vladimir á nú leikjamet Vestra í deildinni, 31 leik.

Vladimir Tufegdzic, til hægri, hefur leikið á Íslandi frá 2015.
Vladimir Tufegdzic, til hægri, hefur leikið á Íslandi frá 2015. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Þá hefur hann leikið 67 leiki með Vestra í 1. deild og til ársins 2015 lék hann 129 deildaleiki í heimalandi sínu, Serbíu, og Norður-Makedóníu.

Viktor Örlygur Andrason skoraði sögulegt mark fyrir Víking þegar hann tryggði liðinu sigur gegn Vestra á Ísafirði. Hann skoraði þar 1.200. mark félagsins í efstu deild karla frá upphafi.

Rúnar Már Sigurjónsson lék sinn 100. leik í efstu deild hér á landi þegar Skagamenn skelltu Blikum 4:1 á Kópavogsvelli. Fyrstu 12 leikina lék hann með HK, síðan 70 með Val og nú eru komnir 18 með ÍA.

Rúnar Már Sigurjónsson í 100. leiknum í efstu deild á …
Rúnar Már Sigurjónsson í 100. leiknum í efstu deild á Íslandi gegn Breiðabliki í gær. mbl.is/Hákon

Rúnar hefur annars leikið samtals 370 deildaleiki á ferlinum og þar af eru 220 erlendis, í Svíþjóð, Sviss, Kasakstan og Rúmeníu.

Emil Atlason varð þriðji leikmaðurinn til að skora 50 mörk fyrir Stjörnuna í efstu deild karla þegar hann kom Garðbæingum yfir á 2. mínútu leiksins gegn KR í gærkvöld. Hinir eru Hilmar Árni Halldórsson (67) og Halldór Orri Björnsson (58), Emil hefur alls skorað 66 mörk í deildinni en hin eru fyrir HK, Þrótt, Val og KR.

Emil Atlason sækir að marki KR í leiknum í gærkvöld.
Emil Atlason sækir að marki KR í leiknum í gærkvöld. mbl.is/Hákon

Þegar Benedikt V. Warén kom Stjörnunni í 3:0 á 11. mínútu leiksins gegn KR í gær skoraði hann 800. mark Garðabæjarfélagsins í efstu deild frá upphafi.

Markahæstir eftir níu umferðir:
8 Patrick Pedersen, Val
6 Aron Sigurðarson, KR
6 Eiður Gauti Sæbjörnsson, KR
5 Viktor Jónsson, ÍA
5 Örvar Eggertsson, Stjörnunni
5 Tobias Thomsen, Breiðabliki
4 Daði Berg Jónsson, Vestra
4 Daníel Hafsteinsson, Víkingi
4 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val
4 Vuk Oskar Dimitrijevic, Fram

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert