Sannfærandi sigur Blika á Víkingum

Breiðablik vann sannfærandi sigur gegn Víkingum, 3:1, í Bestu deild karla í knattspyrnu í Kópavoginum í kvöld.

Víkingur er áfram á toppi deildarinnar með 20 stig en Breiðablik er í öðru sæti með 19 stig.

Blikar hófu leikinn af miklum krafti og pressuðu Víkinga hátt á vellinum sem voru í erfiðleikum með að komast af sínum eigin vallarhelmingi.

Þrátt fyrir kröftuga byrjun Breiðabliks fékk Víkingur fyrsta færi leiksins. Boltinn datt fyrir Helga Guðjónsson í miðjum teignum sem átti skot í stöng og þaðan í Anton Ara Einarsson, markvörð Breiðabliks.

Á 17. mínútu náði Breiðablik forystunni eftir mark frá Dananum Tobias Thomsen. Viktor Karl Einarsson fann Thomsen utarlega í teignum sem tók vel á móti boltanum og skoraði með laglegri afgreiðslu.

Blikar fagna eftir að Tobias Thomsen kom þeim yfir í …
Blikar fagna eftir að Tobias Thomsen kom þeim yfir í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Skömmu síðar var Kristinn Steindórsson nálægt því að bæta við öðru marki Blika. Höskuldur Gunnlaugsson lagði boltann á Kristin vinstra megin í teignum sem reyndi að leggja hann í hægra hornið en skotið endaði rétt framhjá fjærstönginni.

Varnarmaðurinn Viktor Örn Margeirsson tvöfaldaði forystu Breiðabliks á 32. mínútu. Fyrirgjöf Viktors Karls fann Thomsen sem skallaði boltann á Viktor Örn sem skoraði af öryggi.

Víkingur reyndi að minnka muninn fyrir leikhlé en það tókst ekki og staðan því 2:0 fyrir Breiðabliki í hálfleik.

Blikar héldu uppteknum hætti í síðari hálfleik og byrjuðu af miklum krafti. Aron Bjarnason fékk fínt færi snemma í seinni hálfleik en skot hans endaði framhjá markinu.

Stígur Diljan Þórðarson sækir að marki Blikanna á Kópavogsvelli í …
Stígur Diljan Þórðarson sækir að marki Blikanna á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Á 52. mínútu bætti Tobias Thomsen við sínu öðru marki og þriðja marki Breiðabliks. Thomsen skallaði boltann á Ágúst Orra sem keyrði að marki Blika og lagði boltann aftur á Thomsen sem vippaði honum yfir Ingvar Jónsson markvörð Víkings.

Varamaðurinn Matthías Vilhjálmsson skoraði sárabótamark á 88. mínútu fyrir Víking. Anton Ari átti slaka sendingu frá markinu, beint á Matthías sem lagði boltann framhjá Antoni.

Mörkin urðu ekki fleiri í leiknum og Breiðablik fór með öruggan sigur af hólmi, 3:1.

 

Breiðablik 3:1 Víkingur R. opna loka
90. mín. Leik lokið Blikar vinna 3:1 og minnka forskot Víkinga niður í eitt stig.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert