Viljum spila og taka sénsa

Viktor Örn Margeirsson stekkur hæst og skallar boltann frá marki …
Viktor Örn Margeirsson stekkur hæst og skallar boltann frá marki Breiðabliks í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

„Manni líður alltaf vel eftir sigurleiki, hvað þá þegar frammistaðan er svona,“ sagði varnarmaðurinn Viktor Örn Margeirsson eftir 3:1-sigur Breiðabliks gegn Víkingi í Bestu deild karla í knattspyrnu í kvöld. Viktor Örn skoraði annað mark Blika í kvöld.

„Það sem skóp sigurinn í dag var samheldnin. Við leituðum aftur í grunngildin okkar og fórum að gefa extra prósentu hér og þar. Ég held að hver og einn einstaklingur hafi sótt aðeins og þurft að grafa djúpt og sækja þessi prósent,“ sagði Viktor Örn í samtali við mbl.is eftir leik.

Breiðablik hafði tapað tveimur leikjum í röð fyrir viðureignina í kvöld. Viktor Örn var sáttur með svar sinna manna.

„Við þurftum aðeins að skerpa á nokkrum hlutum eftir seinustu tvo leiki, við vorum ekki alveg nógu sáttir með okkur þar, vorum ekki að spila í takti við okkar gildi og vorum ekki að sýna okkar rétta andlit þar,“ sagði Viktor Örn.

Blikar fengu á sig mark í blálokin eftir klaufagang í uppspili. Þeim hefur ekki tekist að halda marki sínu hreinu síðan í byrjun maí.

„Við sköpum þessi fjögur mörk sem eru í leiknum í dag en það er kannski hluti af okkar leik líka. Við viljum spila og taka sénsa og stundum veljum við rétt og stundum ekki. Það er bara hluti af leiknum, við erum ekkert að fara með svipuna á bakið við það að gefa eitt mark. Hefði samt verið gaman að fá hreint lak,“ sagði Viktor Örn

Landsleikjahlé er fram undan og smá pása í deildinni, hvernig ætlið þið að nýta hana?

„Það er að endurnæra sig, á líkama og sál. Maður fær nokkra daga frá klefanum þar sem maður getur verið með fjölskyldum og vinum og endurheimtað aðeins. Síðan er líka bara að halda sér við og koma skarpir til baka eftir landsleikjapásu,“ sagði Viktor Örn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert