10. umferð: Björn, Aron, Andri, Matthías og Tryggvi

Björn Daníel Sverrisson hefur leikið 350 deildaleiki á ferlinum.
Björn Daníel Sverrisson hefur leikið 350 deildaleiki á ferlinum. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Björn Daníel Sverrisson, fyrirliði FH, náði stórum áfanga í 10. umferð Bestu deildar karla í fótbolta og sama gerði Valsmaðurinn Aron Jóhannsson í öðrum leiknum í röð.

Björn Daníel lék sinn 350. deildaleik á ferlinum þegar FH gerði markalaust jafntefli við Aftureldingu á sunnudaginn. Þar af eru 245 leikir fyrir FH þar sem hann er þriðji leikjahæstur frá upphafi, 57 fyrir Viking í norsku úrvalsdeildinni, 39 fyrir AGF í dönsku úrvalsdeildinni og níu leikir fyrir Vejle í dönsku B-deildinni.

Aron Jóhannsson, til hægri, er kominn með 300 deildaleiki og …
Aron Jóhannsson, til hægri, er kominn með 300 deildaleiki og 100 mörk. mbl.is/Birta Margret

Aron, sem skoraði á dögunum sitt 100. deildamark á ferlinum, lék sinn 300. deildaleik þegar Valur vann Fram 2:1 á Hlíðarenda í gærkvöld. Þar af eru 107 leikir fyrir Val og Fjölni, 65 leikir í Danmörku, 60 í Hollandi, 28 í Þýskalandi, 31 í Svíþjóð og níu í Póllandi.

Andri Rafn Yeoman - 305 leikir og fjórði hæstur.
Andri Rafn Yeoman - 305 leikir og fjórði hæstur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Andri Rafn Yeoman lék með Breiðabliki í sigrinum á Víkingi, 3:1, í toppslagnum í fyrrakvöld. Það var hans 305. leikur í efstu deild og hann fór þar með upp fyrir Gunnleif Gunnleifsson og er fjórði leikjahæstur í deildinni frá upphafi.

Matthías Vilhjálmsson - 60 mörk í efstu deild á Íslandi.
Matthías Vilhjálmsson - 60 mörk í efstu deild á Íslandi. Ljósmynd/Inpho Photography

Matthías Vilhjálmsson skoraði sitt 60. mark í efstu deild hér á landi þegar hann gerði mark Víkings í þeim sama leik. Þar af eru 53 mörk fyrir FH þar sem Matthías er fimmti markahæstur, og nú sjö fyrir Víking.

Tryggvi Hrafn Haraldsson - 60 mörk í efstu deild.
Tryggvi Hrafn Haraldsson - 60 mörk í efstu deild. mbl.is/Karítas Sveina Guðjónsdóttir

Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði líka sitt 60. mark í efstu deild þegar hann kom Val í 2:1 gegn Fram í gærkvöld. Hann hefur þar með skorað 35 mörk fyrir Val, þar sem hann er orðinn tíundi markahæstur frá upphafi í efstu deild, og 25 fyrir ÍA.

Markahæstir eftir 10. umferð:
9 Patrick Pedersen, Val
7 Eiður Gauti Sæbjörnsson, KR
7 Tobias Thomsen, Breiðabliki
6 Aron Sigurðarson, KR
5 Daði Berg Jónsson, Vestra
5 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val
5 Viktor Jónsson, ÍA
5 Vuk Oskar Dimitrijevic, Fram
5 Örvar Eggertsson, Stjörnunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert