Arnar Gunnlaugsson fagnaði sínum fyrsta sigri sem þjálfari karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu í kvöld þegar liðið sigraði Skota óvænt en verðskuldað í vináttulandsleik á Hampden Park í Glasgow, 3:1.
Andri Lucas Guðjohnsen og Guðlaugur Victor Pálsson skoruðu sitt markið hvor en annað mark íslenska liðsins var sjálfsmark. John Souttar skoraði fyrir Skota og jafnaði þá 1:1.
Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem Ísland sigrar Skotland í A-landsleik karla en Skotar höfðu unnið fyrstu sex viðureignir þjóðanna.
Skotar urðu fyrir áalli strax á 3. mínútu þegar markvörðurinn Angus Gunn lenti illa eftir að hafa gripið boltann og fór meiddur af velli. Cieran Slicker kom inn á í hans stað í sínum fyrsta landsleik.
Hann var ekki lengi að fá á sig mark því á 8. mínútu komst Ísland yfir. Eftir spyrnu Slickers frá markinu skallaði Stefán Teitur Þórðarson til baka á Andra Lucas Guðjohnsen. Hann lét vaða á markið með vinstri fæti rétt utan vítateigs og sendi boltann óverjandi upp í vinstri samskeytin. Ísland var komið yfir, 1:0.
Fyrstu 15 mínúturnar voru mjög góðar hjá íslenska liðin sem pressaði Skotana vel og hleypti þeim lítið upp völlinn. Þeir komust svo smám saman betur inn í leikinn og fengu dauðafæri á 21. mínútu þegar George Hirst skallaði yfir íslenska markið af markteig eftir misheppnað spil út frá marki og sendingu Johns McGinns frá hægri.
Tveimur mínútum síðar átti Jón Dagur Þorsteinsson hörkuskot á mark Skota, Slicker varði, hélt ekki boltanum en gómaði hann rétt áður en Mikael Egill Ellertsson komst í hann.
Skotar jöfnuðu á 25. mínútu þegar John Souttar skoraði með skalla af markteig eftir hornspyrnu Max Johnston frá vinstri.
Bæði lið áttu ágætar tilraunir og Ísland náði forystunni á ný í lok fyrri hálfleiks. Albert Guðmundsson tók hornspyrnu frá vinstri og boltinn lak af þremur skoskum varnarmönnum í markteignum í netið. Staðan 2:1 fyrir Ísland í hálfleik.
Eftir rólega byrjun á síðari hálfleik náði Ísland að auka forskotið á 52. mínútu. Albert Guðmundsson tók aukaspyrnu frá hægri og sendi inn að vítapunkti þar sem Guðlaugur Victor Pálsson kom á ferðinni, kastaði sér fram og skallaði yfir markvörðinn og í netið, 3:1 fyrir Ísland.
Elías Rafn kom í veg fyrir að Skotar muninn fimm mínútum síðar þegar hann varði skalla Hirst á glæsilegan hátt.
Skotar virtust hafa minnkað muninn á 62. mínútu þegar George Hirst skoraði en Scott McTominay var rangstæður í aðdraganda marksins.
Eftir nokkurn sóknarþunga í kjölfar þriðja marks Íslands dró af Skotunum þegar leið á hálfleikinn. Þeir voru mun meira með boltann en íslenska liðið varðist án teljandi vandræða og var með betri og betri tök á leiknum eftir því sem á leið.
Elías varði aftur vel á 87. mínútu þegar John McGinn reyndi að lyfta boltanum yfir hann frá vítateig en Elías var vel á verði og blakaði boltanum yfir þverslána.
Sigurinn var ekki í neinni hættu eftir það og liðið sigldi honum heim af talsverðu öryggi.