Þó Stjörnukonum hafi ekki gengið vel í heimsókn sinni til Framara í Úlfarsárdal í Bestu deild kvenna í fótbolta í gær eru þær í aðalhlutverkum í 8. umferð deildarinnar þegar horft er til áfanga sem leikmenn Garðabæjarliðsins náðu.
Fyrirliðinn Anna María Baldursdóttir er orðin leikjahæst Stjörnukvenna frá upphafi í efstu deild. Hún lék sinn 219. leik fyrir félagið í deildinni gegn Fram og fór þar með upp fyrir Ásgerði Stefaníu Baldursdóttir sem lék 218 leiki fyrir Stjörnuna í deildinni.
Miðjumaðurinn Andrea Mist Pálsdóttir lék sinn 200. deildaleik á ferlinum. Þar af eru 176 leikir í efstu deild á Íslandi, 50 fyrir Stjörnuna, 115 fyrir Þór/KA og 11 fyrir FH. Hina 24 leikina lék Andrea í efstu deildum erlendis, 5 í Austurríki, 2 á Ítalíu og 17 í Svíþjóð.
Gyða Kristín Gunnarsdóttir lék sinn 100. leik í efstu deild og þeir eru allir fyrir Stjörnuna, frá árinu 2018. Hún hefur aðeins misst af tveimur leikjum liðsins í deildinni frá byrjun tímabilsins 2021.
Þá náði Stjarnan þeim áfanga í leiknum gegn Fram að verða þriðja leikjahæsta félag efstu deildar frá upphafi með 571 leik. Stjarnan fór með því upp fyrir KR sem hefur leikið 570 leiki í deildinni. Leikjahæstu liðin eru Breiðablik með 716 leiki og Valur með 708 leiki. Stjarnan leikur í ár sitt 34. tímabil í röð í efstu deild.
Fanndís Friðriksdóttir er orðin fimmta leikjahæsta kona deildarinnar frá upphafi. Hún lék sinn 263. leik í deildinni gegn Tindastóli á föstudagskvöldið og fór með því upp fyrir Ásgerði Stefaníu Baldursdóttur sem nú er sjötta með 262 leiki.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir úr Breiðabliki er orðin ein í sjötta sæti yfir markahæstu konur í deildinni frá upphafi. Hún skoraði sitt 149. mark þegar Blikar unnu FHL 6:0 og fór upp fyrir Hrefnu Huld Jóhannesdóttur sem er með 148 mörk í sjöunda sætinu.
Markahæstar í deildinni:
8 Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Breiðabliki
7 Freyja Karín Þorvarðardóttir, Þrótti
6 Murielle Tiernan, Fram
6 Samantha Smith, Breiðabliki
6 Sandra María Jessen, Þór/KA
5 Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki