Þróttur úr Reykjavík og Njarðvík gerðu jafntefli, 2:2, í sjöundu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í Laugardalnum í kvöld.
Eftir leik er Þróttur í fimmta sæti með ellefu stig, jafnmörg og Þór Akureyri og HK í fjórða og þriðja, en Njarðvík er í öðru með 13.
Liam Daði Jeffs kom Þrótti yfir á 37. mínútu leiksins en Oumar Diouck jafnaði metin í byrjun seinni hálfleiks, 1:1.
Kári Kristjánsson kom Þrótti aftur yfir með marki úr aukaspyrnu á 60. mínútu en Viktor Bjarki Jónsson jafnaði metin á nýjan leik fyrir Njarðvíkinga á þeirri 83., 2:2, og þar við sat.
Fylkir jafnaði þá metin seint gegn Keflavík, 1:1, í Keflavík.
Eftir leik er Keflavík með tíu stig í sjötta sæti en Fylkir er með sex í tíunda.
Muhamed Alghoul kom Keflvíkingum yfir á fjórðu mínútu leiksins en Theodór Ingi Óskarsson jafnaði metin fyrir Fylkismenn á 87., 1:1, og þar við sat.