Fór ófögrum orðum um þrjá landsliðsmenn Íslands

Arnór Ingvi Traustason í leiknum í gær.
Arnór Ingvi Traustason í leiknum í gær. Ljósmynd/Alex Nicodim

„Ég myndi segja að allur leikurinn og hugarfarið hafi verið vonbrigði,“ sagði Lárus Orri Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í fótbolta og sérfræðingur á Stöð 2 Sport í gær þegar hann gerði upp vináttulandsleik Norður-Írlands og Íslands.

Leiknum lauk með 1:0-sigri Norður-Íra í Belfast þar sem Isaac Price skoraði sigurmark leiksins á 36. mínútu.

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari íslenska liðsins, gerði fimm breytingar á byrjunarliði sínu frá 3:1-sigrinum gegn Skotlandi á fimmtudaginn en þær breytingar skiluðu ekki tilsettum árangri.

Eiga að koma inn með ástríðu

Lárus Orri var ekki hrifinn af frammistöðu íslenska liðsins í leiknum og gagnrýndi þrjá leikmenn liðsins harðlega eftir leikinn.

„Ég horfi á leikmenn eins og Arnór Ingva Traustason og Willum Þór Willumsson. Þetta eru strákar sem fengu gluggann til þess að sýna sig,“ sagði Lárus Orri.

„Þeir eiga að koma inn með ástríðu og sýna að þeir eigi virkilega heima í liðinu. Logi Tómasson líka, þetta eru ekki leikmenn sem voru að nýta tækifærin sín vel,“ bætti Lárus Orri við en myndband af þessu má sjá með því að smella hér.

Willum Þór Willumsson átti ekki sinn besta dag í gær.
Willum Þór Willumsson átti ekki sinn besta dag í gær. Ljósmynd/Alex Nicodim
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert