Það var pirrandi að horfa á vináttulandsleik íslenska karlalandsliðsins í fótbolta gegn Norður-Írlandi á þriðjudaginn.
Eftir sögulegan sigur gegn Skotlandi á föstudaginn gerði maður sér vonir um það að íslenska liðið myndi láta kné fylgja kviði með góðri frammistöðu, úrslitum og fara þannig inn í fyrstu leiki undankeppni HM 2026 með tvo sterka sigra á bakinu.
Leikmenn liðsins virkuðu hins vegar saddir eftir sigurinn gegn Skotlandi og þeir sem komu inn í liðið, eftir að hafa byrjað á varamannabekknum gegn Skotlandi, náðu sér engan veginn á strik. Það var í raun eins og sumir þeirra hefðu verið sprautaðir með kæruleysislyfi rétt fyrir leik, svo slakir voru þeir.
Það er bæði þreytt og ósanngjarnt að vera endalaust að bera landsliðið okkar í dag saman við landsliðið sem fór á tvö stórmót, EM 2016 og EM 2018, en það sem einkenndi gullaldarlið Íslands var fyrst og fremst vinnusemi, dugnaður og ástríðan að spila fyrir Ísland.
Tæknilega séð erum við með miklu betri fótboltamenn í landsliðinu í dag en á þeim tíma en það vantar hins vegar upp á vinnuþjarkana og baráttujaxlana sem voru tilbúnir að henda sér fyrir strætó fyrir Ísland.
Bakvörð Bjarna má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.