FH er komið áfram í undanúrslit bikarkeppni kvenna í fótbolta eftir öruggan sigur gegn Þór/KA, 3:1, í Boganum á Akureyri í dag.
Guðni Einarsson, þjálfari Hafnafirðinga, var að vonum sáttur í viðtali eftir leik. Aðspurður um upplegg og frammistöðu liðsins hafði hann þetta að segja:
„Það var svo sem ekkert nýtt. Við byrjuðum leikinn bara vel, náðum að skora gott mark og litum nokkuð vel út. Þegar þær jafna síðan fannst mér liðið ekki bregðast nógu vel við, það var ekki nógu mikill ákafi í liðinu, vorum lengi að bregðast við og fannst Þór/KA ná að sýna klærnar allt of mikið. En við gjörsamlega átum þær síðan í seinni hálfleik“.
Þetta er nú í annað sinn sem FH vinnur Þór/KA nokkuð sannfærandi á útivelli. Guðni var spurður hvort það væri eitthvað í leik Þórs/KA sem hentar liði FH svona vel.
„Nei nei, ekkert endilega. Þór/KA vill bara spila eins og við, sóknarbolta. Þetta eru alltaf skemmtilegir leikir við Þór/KA og ég ber mikla virðingu fyrir þjálfara Þórs/KA og því sem hann er að gera með lið sitt. Eins og ég segi þá spila þær bara mjög skemmtilegan opinn fótbolta og þá verða oft skemmtilegir leikir okkar á milli. Við höfum náð að sigra þær núna tvisvar á útivelli sem er gríðarlega sterkt“.
FH hefur aldrei náð að verða bikarmeistarar kvenna, hvort lið ætlaði sér örugglega ekki alla leið hafði Guðni það að segja:
„Auðvitað ætla öll liðin sem eru komin áfram að stefna alla leið og það er ekkert öðruvísi hjá okkur. Við höfum gert ágætilega í bikarnum síðustu ár, höfum náð að fara þrisvar sinnum í undanúrslit en höfum aldrei náð að fara alla leið. Það er rosalegt hungur núna að komast alla leið og fara á Laugardalsvöllinn,“ bætti Guðni við í samtali við mbl.is.