Meistararnir skoruðu fimm í grannaslagnum

Andrea Rut Bjarnadóttir sækir að HK-ingum á Kópavogsvelli í kvöld.
Andrea Rut Bjarnadóttir sækir að HK-ingum á Kópavogsvelli í kvöld. mbl.is/Birta Margrét

Breiðablik varð í kvöld síðasta liðið til að tryggja sér sæti í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í fótbolta eftir sigur á grönnum sínum í HK úr 1. deild, 5:1, á heimavelli í kvöld.  ÍBV, Valur og FH höfðu þegar tryggt sér sæti í undanúrslitum.

Breiðablik byrjaði betur og fyrsta markið kom á 12. mínútu þegar Birta Georgsdóttir slapp í gegn eftir slaka sendingu til baka og refsaði með marki.

Tíu mínútum síðar lagði hún upp annað markið á Hrafnhildi Ásu Halldórsdóttur með sendingu inn fyrir vörnina og Hrafnhildur skilaði boltanum í slána og inn.

Örfáum sekúndum síðar skoraði Birta sitt annað mark er hún slapp í gegn eftir sendingu frá Öglu Maríu Albertsdóttur og skoraði.

Nokkrum sekúndum eftir það minnkaði Loma McNeese muninn eftir langan sprett og skot utan teigs. Telma Ívarsdóttir í marki Breiðabliks missti boltann klaufalega inn og staðan orðin 3:1.

Þrátt fyrir þokkaleg færi beggja liða urðu mörkin í fyrri hálfleik ekki fleiri, en Edith Kristín Kristjánsdóttir fékk nokkur fín færi en tókst ekki að koma boltanum framhjá Kaylie Bierman í marki HK fyrir hlé.

Breiðablik náði aftur þriggja marka forskoti á 58. mínútu þegar Agla María Albertsdóttir fékk boltann á vinstri kantinum, sótti að marki og lagði hann glæsilega í bláhornið fjær.

Edith Kristín komst loksins á blað á 67. mínútu er hún gerði fimmta mark Breiðabliks með skalla af stuttu færi eftir að Bierman missti boltann klaufalega eftir sakleysislega fyrirgjöf frá hægri og þar við sat.

Breiðablik 5:1 HK opna loka
90. mín. Einni mínútu bætt við. Óþarfi að bæta við meiru, í ljósi stöðunnar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert