Sérstaklega gaman að skora með skalla

Edith Kristín Kristjánsdóttir skoraði fimmta mark Breiðabliks.
Edith Kristín Kristjánsdóttir skoraði fimmta mark Breiðabliks. mbl.is/Árni Sæberg

Edith Kristín Kristjánsdóttir, 16 ára gamall sóknarmaður Breiðabliks, skoraði eitt marka liðsins í 5:1-heimasigrinum á HK í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Hún ræddi við mbl.is eftir leik og var í góðu skapi.

„Við vorum sloppy í fyrri hálfleik og áttum mikið inni. Við vorum að gera hlutina aðeins of hægt og leyfðum þeim að komast í of mörg færi. Við spiluðum betur í seinni hálfleik þrátt fyrir að það hafi verið slæm augnablik líka,“ sagði hún.

Leikurinn var sá fyrsti í meistaraflokki kvenna á milli Breiðabliks og HK og það var vel mætt á grannaslaginn.

„Það var góð tilfinning. Ég hef oft spilað á móti HK í yngri flokkum en þetta var skemmtilegt í kvöld og gaman að sjá hvað voru margir á vellinum. Það er alltaf gaman að fá að spila. Það er mikil samkeppni og maður þarf að vera ákveðinn.“

Edith var búin að fá nokkur flott færi áður en hún skoraði loksins fimmta mark Breiðabliks á 67. mínútu.

„Ég þarf aðeins að einbeita mér að setja boltann á markið. Það var gaman að markið kom loksins og sérstaklega með skalla því ég er ekki besti skallamaðurinn. Þetta var góður bolti og ég fékk hann eftir að markvörðurinn varði,“ útskýrði hún.

Breiðablik varð síðasta liði til að tryggja sér sæti í undanúrslitum í kvöld á eftir ÍBV, Val og FH. „Það er ógeðslega skemmtilegt að vera í þessari keppni og komast svona langt,“ sagði Edith.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert