Grindavík/Njarðvík tyllti sér á toppinn í 1. deild kvenna í fótbolta með öruggum sigri gegn Aftureldingu að Varmá í Mosfellsbæ í kvöld.
Leiknum lauk með 3:0-sigri Grindavíkur/Njarðvíkur þar sem þær Eydís María Waagfjörð, Dröfn Einarsdóttir og Tinna Hrönn Einarsdóttir skoruðu mörk Grindavíkur/Njarðvíkur. Grindavík/Njarðvík er með 16 stig á toppi deildarinnar en Afturelding er á botninum með þrjú stig.
HK er í öðru sætinu með 15 stig og ÍBV í því þriðja en liðin eiga leik til góða á hin liðin í deildinni og mætast í toppslag í Kórnum í Kópavogi á mánudaginn kemur.
Keflavík vann stórsigur gegn Fylki, 4:1, í Keflavík þar sem Ariela Lewis skoraði tvívegis fyrir Keflvíkinga. Olivia Simmons og Anita Bergrán Eyjólfsdóttir voru einnig á skotskónum fyrir Keflavík en Emma Björt Arnarsdóttir skoraði mark Fylkis á 83. mínútu og minnkaði muninn í 4:1. Keflavík er með níu stig í sjötta sætinu en Fylkir er í níunda og næstneðsta sætinu með sex stig.
Þá gerðu Haukar og ÍA jafntefli á Ásvöllum í Hafnarfirði, 1:1, þar sem Halla Þórdís Svansdóttir kom Haukum yfir á 58. mínútu áður en Madison Schwartzenberger jafnaði metin fyrir Skagamenn á 83. mínútu. Haukar eru með sjö stig í sjöunda sætinu en ÍA er í því áttunda með sex stig.
Í Vesturbænum tók KR á móti Gróttu í nágrannaslag þar sem Grótta fagnaði sigri, 4:2. Seltirningar komust í 2:0 í leiknum áður en KR-ingum tókst að minnka muninn í 2:1 í upphafi síðari hálfleiks. Grótta komst svo í 3:1 áður en KR tókst aftur að minnka muninn. Grótta er með 12 stig í fjórða sætinu en KR er í því fimmta með tíu stig.