Þetta var sögulegt

Isabella Rós í baráttunni í kvöld.
Isabella Rós í baráttunni í kvöld. mbl.is/Birta Margrét

„Þetta eru blendnar tilfinningar,“ sagði Isabella Eva Aradóttir fyrirliði HK í samtali við mbl.is eftir 5:1-tap gegn Íslandsmeisturum Breiðabliks á útivelli í lokaleik átta liða úrslita bikarkeppninnar í fótbolta í kvöld.

HK er í toppsæti 1. deildarinnar og ljóst að verkefnið í kvöld yrði ansi erfitt. Isabella er stolt af ungu HK-liði eftir leikinn.

„Ég er mjög stolt af liðinu. Við vorum góðar í kvöld. Við lentum 3:0 undir en gerðum mjög vel í að minnka muninn. Þótt við höfum ekki jafnað eða komist yfir vorum við alltaf að sækja á þær og teygja á þeim.

Við bjuggumst við að þær myndu keyra á okkur en við ætluðum að reyna að halda í við þær, spila okkar leik og keyra á þær. Þetta er besta lið Íslands á meðan við erum á toppnum í 1. deild.

Það er auðvitað smá munur en það er geggjað að fá að koma hingað og spila svona leik. Það eru forréttindi og við erum sáttar með okkar frammistöðu í bikarnum þrátt fyrir tapið,“ sagði hún.

Leikurinn var sá fyrsti á milli HK og Breiðabliks í meistaraflokki kvenna og Isabella hefur verið hjá HK nær alla ævi.

„Ég fór í Breiðablik í nokkra mánuði en var fljót að koma aftur heim. Ég er stoltur HK-ingur og verð það alltaf. Þetta var sögulegt og það var gaman að fá að vera partur af þessu,“ sagði hún.

HK var í toppsæti 1. deildarinnar fyrir kvöldið en Grindavík/Njarðvík er nú komin þangað. HK á hins vegar leik til góða og getur endurheimt toppsætið.

„Við erum tilbúnar til að takast á við 1. deildina núna og við ætlum okkur beinustu leið upp,“ sagði Isabella ákveðin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert