„Hoppuðu hæð sína af kæti“

Þorsteinn Halldórsson ræðir málin á fréttamannafundi í höfuðstöðvum Icelandair í …
Þorsteinn Halldórsson ræðir málin á fréttamannafundi í höfuðstöðvum Icelandair í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að það séu allir spenntir og tilhlökkun í öllum að taka þátt í stórmóti. Það er það sem allir vilja,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir að hann tilkynnti 23-manna lokahóp fyrir EM 2025 í Sviss.

„Allir leikmenn vilja fara á stórmót. Allir leikmenn vilja upplifa það. Svo vilja líka allir leikmenn upplifa það að ná árangri á stórmóti. Það er markmiðið okkar. Að við gerum eitthvað á þessu móti og komumst upp úr riðlinum,“ hélt Þorsteinn áfram.

Ísland er í A-riðli með gestgjöfum Sviss ásamt Noregi og Finnlandi. Drátturinn er ansi heppilegur og líklega sjaldan sem íslenska liðið fær betra tækifæri til þess að komast upp úr riðli á stórmóti.

Metnar sem slökustu þjóðirnar

„Ég get alveg verið sammála því. Fyrir fram er maður alveg sáttur við þennan riðil og það er bara jákvætt. En að sama skapi getum við líka sagt það að Noregur og Finnland hoppuðu hæð sína af kæti þegar þau enduðu með Sviss og Íslandi í riðli.

Þau voru mjög sátt við það. Maður sá það alveg við dráttinn að það glöddust allir yfir því. Við vissum það alveg að fyrir fram vildu allar þjóðirnar lenda með Sviss og Íslandi í riðli, sem voru metnar sem slökustu þjóðirnar í fyrsta og öðrum styrkleikaflokki.

Við getum alveg verið sátt við andstæðingana okkar en við þurfum klárlega að spila vel til að ná einhverjum árangri,“ sagði landsliðsþjálfarinn einnig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert