Fylkir og Grindavík skildu jöfn, 1:1, í áttundu umferð 1. deildar karla í knattspyrnu í Árbænum í kvöld.
Grindvíkingar eru þar með komnir í fjórða sætið með 11 stig og Fylkir er nú í níunda sætinu með 7 stig en Árbæjarliðið hefur enn aðeins unnið einn leik á tímabilinu.
Fylkir komst yfir eftir 20 mínútna leik þegar Þóroddur Víkingsson skoraði með skalla eftir fyrirgjöf. Þóroddur var búinn að skora í tveimur leikjum Árbæinga í röð sem varamaður og nýtti vel sitt fyrsta tækifæri í byrjunarliðinu á þessu tímabili.
Ármann Ingi Finnbogason jafnaði fyrir Grindavík á 72. mínútu, 1:1, þegar hann skoraði beint úr hornspyrnu frá hægri.