Trúi því að júlí verði okkur fengsæll

Sveindís Jane Jónsdóttir og Þorsteinn Halldórsson á EM 2022 á …
Sveindís Jane Jónsdóttir og Þorsteinn Halldórsson á EM 2022 á Englandi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, kveðst ánægður með þróunina á liðinu undanfarin ár er hann undirbýr það fyrir þátttöku á Evrópumóti í annað sinn undir sinni stjórn.

„Já, já. 2024 áttum við frábært ár. Við unnum frábæra sigra og áttum líka frábæra leiki, eins og á móti Bandaríkjunum. Síðan kemur svona smá rót á hópinn vegna meiðsla og annars, sem hefur einhver áhrif. En við höfum líka sýnt mjög góða frammistöðu.

Okkur hefur aðeins vantað upp á að reka endahnútinn til að klára leiki með sigrum. Ég trúi því að þeir komi núna í næsta mánuði og að júlímánuður 2025 verði okkur fengsæll,“ sagði Þorsteinn í samtali við mbl.is eftir fréttamannafund í höfuðstöðvum Icelandair í dag.

EM 2025 hefst í byrjun næsta mánaðar þar sem Ísland er í riðli með gestgjöfum Sviss, Noregi og Finnlandi.

Sjáum vonandi jákvæð teikn á lofti

Á EM 2022 á Englandi tókst Íslandi ekki að komast upp úr riðlinum sínum þrátt fyrir að hafa farið taplaust í gegnum hann. Þrjú jafntefli urðu niðurstaðan sem reyndist ekki nóg til að fara áfram.

Dregur þú einhvern lærdóm af mótinu 2022 sem þú getur nýtt þér fyrir mótið í ár?

„Já, algjörlega. Það var bæði í aðdraganda og þegar komið var í mótið að maður lærði fullt af þessu. Sá lærdómur sem ég dró af þessu mun vonandi bara nýtast mér. Það er ýmislegt sem við erum búin að gera í aðdraganda mótsins núna.

Undirbúningurinn okkar er búinn að vera öðruvísi, betri, og svo vonandi inni á mótinu sjáum við jákvæð teikn á lofti um að við séum að standa okkur og gera hlutina ennþá betur en síðast,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert