Stjarnan fór upp í fjórða sæti Bestu deildar karla í fótbolta með heimasigri á Val, 3:2, í fyrsta leik 11. umferðarinnar á Stjörnuvellinum í Garðabænum í kvöld. Stjarnan er komin upp fyrir Vestra og er með 17 stig. Valur er áfram í þriðja sæti með 18 stig.
Stjarnan byrjaði miklu betur og Guðmundur Baldvin Nökkvason og Örvar Eggertsson fengu báðir góð færi á 8. mínútu. Guðmundur skaut rétt framhjá og Frederik Schram verði vel frá Örvari.
Hann varði svo glæsilega frá Emil Atlasyni á 10. mínútu og nokkrum sekúndum síðari átti Guðmundur Baldvin skot rétt framhjá.
Markið kom loks á 18. mínútu þegar Jóhann Árni Gunnarsson skilaði boltanum í bláhornið frá vítateigslínu eftir sendingu frá Guðmundi.
Valsmenn sóttu í sig veðrið eftir markið og Patrick Pedersen jafnaði á 27. mínútu með skoti í Samúel Kára Friðjónsson og í netið eftir sendingu frá Orra Hrafni Kjartanssyni. Markið var það 126. sem Pedersen skorar í efstu deild á Íslandi en markamet Tryggva Guðmundssonar er 131 mark.
Leikurinn jafnaðist eftir markið og urðu færin ekki fleiri í fyrri hálfleik og staðan jöfn í leikhléi.
Stjörnumenn voru sterkari framan af í seinni hálfleik og það skilaði sér í marki á 63. mínútu. Það gerði Emil Atlason er hann skaut utarlega í teignum og boltinn í varnarmann og í netið. Jóhann Árni bætti stoðsendingu við markið sitt, því hann átti sendinguna á Emil.
Fimm mínútum síðar bætti Guðmundur Baldivin við þriðja marki Stjörnunnar er hann ýtti boltanum yfir línuna í markteignum eftir fyrirgjöf frá Þorra Mar Þórissyni.
Valsmenn gáfust ekki upp og Pedersen skoraði sitt annað mark og 127. mark í deildinni á 77. mínútu er hann kláraði vel í teignum eftir skalla frá Orra Sigurði Ómarssyni.
Aðeins tveimur mínútum síðar fékk Bjarni Mark Duffield hjá Val beint rautt spjald fyrir að taka Örvar Eggertsson niður þegar Stjörnumaðurinn var að sleppa í gegn. Fleiri urðu mörkin hins vegar ekki og Stjörnumenn fögnuðu vel.