„Þetta var mjög fínn leikur hjá okkur,“ sagði Samúel Kári Friðjónsson leikmaður Stjörnunnar í samtali við mbl.is eftir 3:2-sigur liðsins á Val í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld.
„Við byrjuðum frábærlega en svo slokknaði aðeins á okkur og þeir komust inn í leikinn. Þeir skoruðu úr eina færinu sínu, sem var óhapp. Síðan komum við og vorum miklu betri í seinni hálfleik.
Við þurfum að skerpa á nokkrum hlutum og keyra þetta upp. Við tókum yfir leikinn og því sem fór. Þetta var 120 prósent verðskuldaður sigur,“ sagði Samúel um leikinn.
Stjarnan er í fjórða sæti og nálgaðist efstu lið deildarinnar með sigrinum í kvöld. Liðið er nú þremur stigum frá toppliði Víkings.
„Að sjálfsögðu viljum við vera í toppbaráttunni en við erum komnir fram úr okkur ef við ætlum að byrja að tala um það. Það er Keflavík í næsta leik,“ sagði hann.
Samúel kann vel við sig í Garðabænum en hann kom til félagsins fyrir tímabilið eftir rúman áratug sem atvinnumaður erlendis. Hann spilaði bæði sem miðvörður og miðjumaður í dag og hefur einnig spilað sem bakvörður á tímabilinu.
„Mér líður mjög vel og það var ástæða fyrir því að ég kom hingað. Ég spila þar sem ég þarf til að hjálpa liðinu,“ sagði Samúel.