Vonbrigðin mest fyrir hana

Selma Sól Magnúsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir hafa myndað fyrirliðateymi með …
Selma Sól Magnúsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir hafa myndað fyrirliðateymi með Glódísi Perlu Viggósdóttur sem er landsliðsfyrirliði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Glódís Perla Viggósdóttir, Ingibjörg Sigurðardóttir og Selma Sól Magnúsdóttir hafa saman myndað fyrirliðateymi íslenska landsliðsins í knattspyrnu. Þar sem Selma Sól fer ekki með á EM 2025 í Sviss þarf að mynda nýtt teymi.

„Það eru viðræður í gangi varðandi það. Við erum ekki alveg búin að klára það. Við búum til teymi sem verður klárt á EM.

Við eigum bara raunverulega eftir að klára það,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari í samtali við mbl.is eftir fréttamannafund í höfuðstöðvum Icelandair í Hafnarfirði í gær.

Fundurinn var haldinn í tilefni þess að Þorsteinn tilkynnti 23-manna lokahóp fyrir Evrópumótið í hádeginu í gær. EM 2025 hefst í byrjun næsta mánaðar.

Munum sakna hennar

Selma Sól, sem er meidd og því ekki leikfær, hefur verið í stóru hlutverki á miðjunni undir stjórn Þorsteins undanfarin ár. Er hann var spurður hvort það væri vont að hún væri ekki með á lokamótinu sagði Þorsteinn:

„Já, auðvitað. Selma er búin að spila vel fyrir okkur undanfarin tvö ár og var stór partur af liðinu þar á undan. Hún er búin að vera flottur leiðtogi í hópnum og skipt okkur máli.

Við munum sakna hennar að mörgu leyti. Það er heilt yfir vont að missa hana. Það er engin spurning en svona er þetta bara. Vonbrigðin eru náttúrlega líka gríðarlega mikið hennar, að vera í þessari stöðu.

Það er leiðinlegast fyrir hana að missa af svona. Vonandi nær hún sér núna og kemur sér aftur á gott skrið og hjálpar okkur í framhaldinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert