Fyrsti leikur mikilvægur í svona móti

Þorsteinn Halldórsson ræðir málin á fréttamannafundi í höfuðstöðvum Icelandair á …
Þorsteinn Halldórsson ræðir málin á fréttamannafundi í höfuðstöðvum Icelandair á föstudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tveir af mótherjum Íslands í A-riðli á EM 2025, Sviss og Noregur, eru liðinu að góðu kunnir eftir að öll þrjú voru saman í riðli og spiluðu tvo leiki hvert við annað í Þjóðadeild kvenna í knattspyrnu fyrr á árinu. Fjórða liðið, Finnland, er óþekktari stærð.

Fyrsti leikur Íslands á Evrópumótinu í Sviss er einmitt gegn Finnum 2. júlí í Thun.

„Við eigum von á hörkuleik á móti Finnum. Finnar eru með mikið af leikmönnum sem spila á Norðurlöndunum, góða leikmenn. Þróunin í finnska kvennaboltanum er mjög góð.

Þau eru að gera ýmislegt í yngri flokka starfinu til þess að búa til leikmenn. Það tel ég að ætti að skila þeim ennþá betra liði á næstu árum.

En klárlega gerum við okkur grein fyrir því að við þurfum að fara í leikinn á móti Finnlandi til þess að spila til sigurs. Það er mikilvægur leikur.

Fyrsti leikur er alltaf mikilvægur í svona móti. Við þurfum klárlega að spila vel á móti Finnum og vonandi verður sá leikur nógu góður til þess að við vinnum þær,“ sagði Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert