Gylfi Þór Sigurðsson og Patrick Pedersen náðu báðir stórum áföngum á sínum ferli í 11. umferð Bestu deildar karla í fótbolta.
Gylfi lék sinn 450. deildaleik á ferlinum þegar Víkingur mætti KR í gærkvöld og hann er aðeins 21. íslenski knattspyrnumaðurinn til að ná þeim leikjafjölda, heima og erlendis.
Hann hefur leikið 29 deildaleiki á Íslandi með Víkingi og Val, 36 með Hoffenheim í Þýskalandi og 5 með Lyngby í Danmörku. Hinir 380 leikirnir eru á Englandi og þar af 318 með Everton, Swansea og Tottenham í úrvalsdeildinni en hinir 62 með Reading, Crewe og Shrewsbury í B-, C- og D-deildunum.
Patrick varð næstmarkahæsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar karla þegar hann skoraði bæði mörk Vals í ósigrinum gegn Stjörnunni, 3:2, á laugardagskvöldið. Hann hefur nú skorað 127 mörk í deildinni og með seinna markinu fór hann upp fyrir annan Valsmann, Inga Björn Albertsson, sem skoraði 126 mörk í deildinni, þar af 109 fyrir Val, en þeir eru tveir markahæstu leikmenn félagsins í efstu deild karla.
Patrick er nú aðeins fjórum mörkum frá því að jafna markamet Tryggva Guðmundssonar sem skoraði 131 mark í deildinni á sínum tíma.
Um leið lék Patrick sinn 200. leik í deildinni. Þeir leikir eru allir fyrir Val og Daninn er áttundi leikmaður félagsins frá upphafi til að ná 200 leikjum í efstu deild karla.
Davíð Örn Atlason varð í gærkvöld þriðji leikjahæsti leikmaðurinn í sögu Víkings í efstu deild karla. Davíð lék sinn 173. leik fyrir félagið í deildinni gegn KR og fór með því upp fyrir Jóhannes Bárðarson sem lék 172 leiki.
Þeir einu sem eru með fleiri leiki en Davíð eru Magnús Þorvaldsson sem lék 204 leiki fyrir félagið í deildinni og Halldór Smári Sigurðsson sem lék 203 leiki.
Markahæstir eftir 11 umferðir:
11 Patrick Pedersen, Val
8 Tobias Thomsen, Breiðabliki
7 Eiður Gauti Sæbjörnsson, KR
6 Aron Sigurðarson, KR
6 Viktor Jónsson, ÍA
6 Vuk Oskar Dimitrijevic, Fram
5 Daði Berg Jónsson, Vestra
5 Jóhannes Kristinn Bjarnason, KR
5 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val
5 Örvar Eggertsson, Stjörnunni