11. umferð: Stór áfangi Gylfa og Patrick fram úr Inga

Gylfi Þór Sigurðsson hefur leikið 450 deildaleiki á ferlinum og …
Gylfi Þór Sigurðsson hefur leikið 450 deildaleiki á ferlinum og missti þó úr tvö heil tímabil. mbl.is/Eyþór Árnason

Gylfi Þór Sigurðsson og Patrick Pedersen náðu báðir stórum áföngum á sínum ferli í 11. umferð Bestu deildar karla í fótbolta.

Gylfi lék sinn 450. deildaleik á ferlinum þegar Víkingur mætti KR í gærkvöld og hann er aðeins 21. íslenski knattspyrnumaðurinn til að ná þeim leikjafjölda, heima og erlendis.

Hann hefur leikið 29 deildaleiki á Íslandi með Víkingi og Val, 36 með Hoffenheim í Þýskalandi og 5 með Lyngby í Danmörku. Hinir 380 leikirnir eru á Englandi og þar af 318 með Everton, Swansea og Tottenham í úrvalsdeildinni en hinir 62 með Reading, Crewe og Shrewsbury í B-, C- og D-deildunum.

Patrick varð næstmarkahæsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar karla þegar hann skoraði bæði mörk Vals í ósigrinum gegn Stjörnunni, 3:2, á laugardagskvöldið. Hann hefur nú skorað 127 mörk í deildinni og með seinna markinu fór hann upp fyrir annan Valsmann, Inga Björn Albertsson, sem skoraði 126 mörk í deildinni, þar af 109 fyrir Val, en þeir eru tveir markahæstu leikmenn félagsins í efstu deild karla.

Patrick Pedersen, til hægri, fagnar öðru markanna gegn Stjörnunni.
Patrick Pedersen, til hægri, fagnar öðru markanna gegn Stjörnunni. mbl.is/Ólafur Árdal

Patrick er nú aðeins fjórum mörkum frá því að jafna markamet Tryggva Guðmundssonar sem skoraði 131 mark í deildinni á sínum tíma.

Um leið lék Patrick sinn 200. leik í deildinni. Þeir leikir eru allir fyrir Val og Daninn er áttundi leikmaður félagsins frá upphafi til að ná 200 leikjum í efstu deild karla.

Davíð Örn Atlason varð í gærkvöld þriðji leikjahæsti leikmaðurinn í sögu Víkings í efstu deild karla. Davíð lék sinn 173. leik fyrir félagið í deildinni gegn KR og fór með því upp fyrir Jóhannes Bárðarson sem lék 172 leiki.

Davíð Örn Atlason - þriðji leikjahæsti Víkingurinn.
Davíð Örn Atlason - þriðji leikjahæsti Víkingurinn. Ljósmynd/Víkingur

Þeir einu sem eru með fleiri leiki en Davíð eru Magnús Þorvaldsson sem lék 204 leiki fyrir félagið í deildinni og Halldór Smári Sigurðsson sem lék 203 leiki.

Markahæstir eftir 11 umferðir:

11 Patrick Pedersen, Val
8 Tobias Thomsen, Breiðabliki
7 Eiður Gauti Sæbjörnsson, KR
6 Aron Sigurðarson, KR
6 Viktor Jónsson, ÍA
6 Vuk Oskar Dimitrijevic, Fram
5 Daði Berg Jónsson, Vestra
5 Jóhannes Kristinn Bjarnason, KR
5 Tryggvi Hrafn Haraldsson, Val
5 Örvar Eggertsson, Stjörnunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert